Landeigandi við Hólmsheiðarveg kveðst í samtali við mbl.is heldur óhress með þau vinnubrögð borgarinnar að senda kynstur af snjó með mokstursverktökum sínum sem svo sturti snjónum við veginn en þeir landeigendurnir á svæðinu hafi í sjálfboðavinnu og samstarfi sín á milli séð um að halda honum hreinum.
Fyrstu dagana hafi allt leikið nokkurn veginn í lyndi að sögn landeigandans, sem kýs að vera nafnlaus í þessu viðtali, en svo hafi farið að syrta í álinn.
„Um daginn vorum við að breikka veginn aðeins og þá koma þarna vörubílar og fara að sturta snjó. Þeir sturta þá niður fyrir veginn og niður brekku sem þar er og dreifa svo úr snjónum svo þetta var allt í lagi. En það var bara fyrstu dagana,“ segir landeigandinn frá.
„Núna eru þeir svo farnir að sturta hinum megin við veginn og þar er engin brekka svo þá fyllist bara allt af snjó,“ heldur hann áfram. Við slíkar aðstæður þurfi ekki nema skafrenning í stutta stund til að vegurinn lokist og þá sé friðurinn úti fyrir þá nágrannana og meiri mokstur bíði þeirra, en að sögn viðmælandans hafa þeir bætt þessu verkefni á sig til að halda Hólmsheiðarvegi opnum fyrir sjálfa sig og almenning.
„Heilbrigðiseftirlitið samþykkti þetta ekki, þetta eru kannski tvær vikur eða svo sem þetta hefur staðið yfir. Hér ruddu þeir sjálfir pláss til að vörubílarnir kæmust leiðar sinnar og ruddu þá í leiðinni burt stikum sem marka legu Korpulínu, raforkulínunnar til borgarinnar, það er helgunarsvæði og líklega óheimilt að aka vörubílum ofan á því eða fylla allt af snjó sem bráðnar og breytir svæðinu umhverfis háspennulínuna í mýri, þetta er bara ekki eins og það á að vera,“ segir landeigandinn ómyrkur í máli.
Hólmsheiðarvegur liggur frá Reynisvatni, upp ás og fram hjá Langavatni þar sem viðmælandinn og nágrannar hans eiga lönd sín. „Þarna skammt frá er líka útivistarsvæði og hingað kemur margt fólk til að stunda gönguskíði og bílastæði sem þessir gestir nota hafa verið fyllt af snjó líka,“ segir hann.
Kveðst hann hafa fengið þau skilaboð frá borginni að verktakinn, Íslenska gámafélagið, hafi bara fengið leyfi til að losa þarna í nokkra daga til að láta hlutina ganga en svo hafi því verið haldið áfram.
„Þetta er fyrst og fremst bara ósanngjarnt gagnvart okkur, við fáum enga þjónustu frá borginni í vetur og erum að moka þarna á okkar kostnað, langan og erfiðan kafla. Við erum ekki með nein risatæki og það tekur okkur alveg daginn að moka niður að hringtorgi og þá hjálpar það ekkert ef risastórir skaflar eru beggja vegna vegarins og hann fyllist upp á kortéri ef það fer að blása,“ segir landeigandi við Hólmsheiðarveg að lokum, þar sem moksturinn er þungur þessi dægrin.