Lögreglan á Vesturlandi, þyrlusveit Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir leita nú á stóru svæði á bæði landi og sjó að Modestas Antanavicius, 46 ára karlmanni sem ekkert hefur spurst til síðan á laugardaginn.
Ásmundur Kr. Ásmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir að engar ábendingar hafi borist embættinu frá því í gær þegar lögreglan biðlaði til íbúa á svæðinu að skoða nærumhverfi sitt, híbýli og upptökur öryggismyndavéla séu þær til staðar.
„Vaktin byrjar sjö og svo um leið og það birtir er byrjað að leita. Við erum að þessu fram á kvöld en reynum að nýta gluggann sem við höfum þegar að það er bjart. Í fyrramálið verður allt komið á fullt klukkan átta en það fer ekki að birta fyrr en tíu, ellefu,“ segir Ásmundur í samtali við mbl.is.
Modestas sást síðast í eftirlitsmyndavél klukkan 17.09 á laugardaginn þegar hann gekk inn í Olís-stöðina í Borgarnesi en hann er búsettur í bænum. Modestas var ekki á bílnum sínum þegar hann hvarf og var hann heldur ekki með síma á sér.
„Við höfum ekki séð neitt staðfest um hann síðan á laugardaginn þegar við sjáum hann á myndum,“ segir Ásmundur.
„Við könnum það hvort að fólk hefur farið úr landi, hvort það hafi tekið strætó úr Borgarnesi, við höfum engar slíkar upplýsingar.“
Leitin fer nú fram á því svæði sem talið er að Modestas hafi mögulega komist fótgangandi á þeim tíma sem er liðinn frá hvarfi hans.
„Við erum að leita á stóru svæði, á landi og sjó. Landhelgisgæslan er með þyrlu, við erum að nota dróna og svo koma fleiri björgunarsveitarmenn til sögunnar á morgun, laugardag, og þá förum við í enn víðtækari leit. En leitin hefur ekki borið árangur,“ segir Ásmundur.
Leitarsvæðið nær nú niður í Grunnafjörð, upp undir Akraós og langleiðina í átt að Hreðavatni.
„Það er kerfi sem segir okkur hvað einhver kemst langt á fæti á þessum tíma, við þurfum að fókusera á það. Það hefur enginn gefið sig fram að hafa tekið hann upp í bíl. Við höfum engar slíkar upplýsingar. Hann er alla vega ekki á sínum bíl.“
Samhliða leit á sjó og landi skoðar lögreglan einnig upptökur úr eftirlitsmyndavélum hjá fyrirækjum á svæðinu.
„Þá erum við alltaf að fókusera á laugardaginn. Síðan erum við náttúrulega búin að fljúga mikið með dróna. Svo er verið að fara yfir það efni, rýna í upptökurnar.“
Eins og áður kom fram sást síðast til Modestas ganga inn í Olís í Borgarnesi. Að sögn Ásmundar telur lögreglan að hann sé enn klæddur í sama fatnað og hann sést í á upptökum eftirlitsmyndavéla þar.
„Hann er náttúrulega mjög dökkklæddur þannig að það gerir okkur erfiðara fyrir. En við vitum ekki hvort hann sé í húsi eða víðavangi. Við erum bara að leita alls staðar sem við teljum okkur þurfa að leita.“