Opna úrræðið ekki eins fljótt og áætlað var

Litið yfir Laugarvatn.
Litið yfir Laugarvatn. mbl.is/Sigurður Bogi

Bláskógabyggð fundaði með Vinnumálastofnun á miðvikudag, þar sem farið var nánar yfir áform Vinnumálastofnunar er lúta að því að umsækjendur um alþjóðlega vernd fái húsaskjól á Laugarvatni, meðan unnið er úr umsóknum þeirra.

„Fundurinn var upplýsandi, en þetta er ennþá bara að teiknast upp, svo það vantar enn upplýsingar. Þeir munu upplýsa okkur eftir því sem þetta skýrist. Við þurfum auðvitað að undirbúa til þess að geta tekið við þessu,“ segir Ásta Stefánsdóttir, sveitarstjóri í Bláskógabyggð.

Til stend­ur að hýsa fólkið í heima­vist­ar­húsi Há­skóla Íslands, bygg­ingu þar sem áður var íþrótta­kenn­ara- og þar áður hús­mæðraskóli. Grunnskólinn að Laugarvatni hefur hingað til nýtt hluta af húsnæðinu undir kennslu, og mun skólinn fá að halda því áfram. Sá hluti húsnæðisins verður aðskilinn frá úrræðinu.

„Það liggja ekki allir þættir ljósir fyrir ennþá, Vinnumálastofnun er bara að ganga frá sínum starfsmannamálum núna, en það er ljóst að þetta opnar ekki eins fljótt og áætlað hafði verið. Það var upphaflega talað um að þetta myndi opna innan tveggja til þriggja vikna, en það mun taka einhvern lengri tíma því það er verið að laga húsnæðið.“

Vantar enn upplýsingar um samsetningu

Ekki liggja enn fyrir upplýsingar um samsetningu þess hóps sem mun koma til með að búa í úrræðinu, og er það bagalegt fyrir sveitarfélagið. „Ef það eru börn í hópnum þá þurfum við að gera ráðstafanir til þess að geta séð þeim fyrir menntun. Það skiptir máli fyrir okkur að fá upplýsingar um það svo við getum brugðist við og skipulagt með hvaða hætti það verður. “

Ásta segir að þessu fylgi aukið álag og verkefni, og um sé að ræða eitthvað sem sveitarstjórnir hafi almennt ekki gert ráð fyrir í sínu skipulagi.

Kynningarfundur fyrir íbúa

Vinnumálastofnun og Fjölmenningarsetur ætla að halda kynningarfund fyrir íbúa að Laugarvatni, og verður hann annað hvort í lok næstu viku eða byrjun þar næstu. „Við óskuðum strax eftir því að það yrði haldinn kynningarfundur.“

Á fundinum býst Ásta við að farið verði yfir hvers konar úrræði er verið að koma á fót, samsetningu hópsins, hvernig mönnun verði háttað og hvernig fólkið verði aðstoðað við að sækja þjónustu.

Skipulagðar ferðir til heilbrigðisstofnana

Í viðtali við Morgunblaðið fyrr í vikunni, benti Ásta á að engin heilbrigðisstofnun væri á Laugarvatni, sem gæti orðið áskorun fyrir þennan hóp fólks, sem mun ekki eiga bíl. Næsta heilbrigðisstofnunin er á Laugarási, í 26 kílómetra fjarlægð, en engar almenningssamgöngur ganga þarna á milli.

„Það kom fram hjá Vinnumálastofnun, að þau munu sjá um og skipuleggja ferðir fyrir fólkið, til að komast í heilbrigðisþjónustu. Þeir eiga væntanlega eftir að ræða það við heilbrigðisstofnun Suðurlands, hvort því yrði sinnt á Selfossi eða Laugarási.“

Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri í Bláskógabyggð.
Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri í Bláskógabyggð. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka