Ráðherra sá eitthvað sem myndi nýtast vel

Sigurður H. Helgason forstjóri Sjúkratrygginga Íslands frá 1. febrúar næstkomandi.
Sigurður H. Helgason forstjóri Sjúkratrygginga Íslands frá 1. febrúar næstkomandi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Sigurður H. Helgason, nýr forstjóri Sjúkratrygginga Íslands, var ráðinn án þess að starfið hafi verið auglýst. Hann segir að heilbrigðisráðherra hafi séð eitthvað í sínum bakgrunni, reynslu og þekkingu sem myndi nýtast stofnuninni vel.

„Það er ákvörðun heilbrigðisráðherra að gera það. Hann hefur metið það þannig að það sé eitthvað í mínum bakgrunni, reynslu og þekkingu sem muni nýtast þessari stofnun vel og tekur þessa ákvörðun í því ljósi,“ segir Sigurður í samtali við mbl.is.

„Ef menn skoða minn bakgrunn þá er ég með býsna mikla og fjölbreytta reynslu og hef meðal annars komið að viðfangsefnum þessarar stofnunnar.“

Hagræðingatækifæri hjá SÍ

Sig­urður tek­ur við embætt­inu af Maríu Heim­is­dótt­ur sem hef­ur gegnt embætti for­stjóra frá ár­inu 2018, en hún sagði upp starfi sínu í des­em­ber vegna van­fjár­mögn­un­ar stofn­un­ar­inn­ar.

Sigurður segist ekki geta lagt mat á fjármögnun stofnunarinnar að svo stöddu.

„Ég held hins vegar að það blasi við að þarna eru mörg mikilvæg verkefni sem þarf að vinna og það þarf að tryggja nægilegt fjármagn til þess að hægt sé að vinna þau verkefni.“

Sigurður segir að það gætu verið tækifæri til hagræðingar hjá SÍ en ítrekar að hann þurfi að kynnast starfsemi stofnunarinnar betur til þess að geta sagt meira.

„Auðvitað mun ég setja minn svip á áherslur þessarar stofnunnar en ég held það sé best að bíða með miklar yfirlýsingar um það þangað til ég hef haft tækifæri til að kynna mér þetta betur,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert