„SA fara ekki með samningsumboð fyrir FRV“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur fram að samtök …
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, tekur fram að samtök hans fari ekki með samningsumboð fyrir Félag ráðgjafarverkfræðinga. mbl.is/Hákon

„Hér er verið að ýja að því að Samtök atvinnulífsins séu búin að brjóta regluna um 66.000 króna hámarkshækkun á laun sem er ekki rétt þar sem Samtök atvinnulífsins fara ekki með samningsumboð fyrir Félag ráðgjafarverkfræðinga [FRV] og koma ekki að þessum kjarasamningi á neinum stigum máls,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í samtali við mbl.is og vísar til fréttar í Morgunblaðinu í morgun.

„Samtök atvinnulífsins hafa þar af leiðandi ekki setið neina samningafundi með Félagi ráðgjafarverkfræðinga og hafa enga aðkomu að gerð kjarasamninga FRV við viðsemjendur,“ heldur Halldór áfram, annað hafi mátt skilja af frétt blaðsins sem Halldór kveður ranga í öllum meginatriðum hvað þetta atriði varðar.

„Eins og fram kemur í greininni vísa Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja [SSF] til kjarasamninga Félags ráðgjafarverkfræðinga en þau vita að Samtök atvinnulífsins fara ekki með samningsumboð fyrir FRV og að því leyti er um villandi framsetningu hjá formanni Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja að ræða,“ segir Halldór enn fremur og bætir því við að villandi málflutningur sé ekki til þess fallinn að einfalda þá kjaradeilu sem SA eigi í við SSF.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert