Vantar staðreyndir í umræðuna um heilbrigðiskerfið

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Auðvitað hefur maður alltaf áhyggjur þegar það er viðvarandi álag,“ segir Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. Blaðamaður mbl.is ræddi við Willum um stöðuna á heilbrigðiskerfinu, þá sérstaklega á bráðamóttöku Landspítala, en hann segist bjartsýnn á bjartari tíma framundan. 

Í samtali við mbl.is í síðustu viku greindi Theó­dór Skúli Sig­urðsson, formaður Fé­lags sjúkra­hús­lækna, að allavega fimm sér­fræðilækn­ar með mennt­un í bráðalækn­is­fræði hefðu hætt á bráðamóttökunni síðustu tvö árin. 

„Þegar það er viðvarandi álag eins og við höfum upplifað síðustu misseri þá verður fólk þreytt,“ segir Willum og bætir við að heilt yfir hafi heilbrigðisstarfsfólk staðið sig feykilega vel. 

„Ég átta mig ekki á stöku ákvörðunum um það hvort að þú skiptir um vinnu eða hættir. Auðvitað hafa komið einhverjar útskýringar á því en ég get ekki fullyrt neitt í þeim efnum.“

Fjölmargt sem þarf að bæta

Eggert Eyj­ólfs­son, einn þeirra sér­fræðilækn­a í bráðalækn­ing­um sem hefur sagt upp störfum, sagði í samtali við mbl.is að of­urálag, skort á skipu­lagi og framtíðar­sýn vera stærsta vanda­málið á Land­spít­al­an­um.

Willum segir mikilvægt að hlusta og taka mið á því sem sagt er. 

„Við erum auðvitað búin að bregðast við stöðunni sem hefur verið í langan tíma, þar á meðal á bráðamóttöku. Við getum lesið skýrslur og álitsgerðir þess efnis hvað þurfi að bæta. Það er fjölmargt sem þarf að bæta. Það eru auðvitað tvö atriði sem blikka alltaf. Það er flæði, eftir því hvaða þjónustu sjúklingarnir þurfa. Birtingamyndin er oftast á bráðamóttöku spítalans þegar við erum að fara í gegnum svona álagspunkta, eins og núna holskeflu veirusýkinga. Svo er það mönnunin.“

Önnur úrræði eftir bráðamóttöku

Hann segir mikilvægt að efla alla þjónustu utan spítalans til að draga úr álaginu. 

„Þegar sjúklingar hafa fengið þjónustu og þurfa að komast í önnur úrræði, komast mögulega ekki heim til sín,“ segir Willum og nefnir að hjúkrunar- og endurhæfingarrýmum hafi verið fjölgað um 60 til að liðka fyrir.

„Við erum búin að setja stjórn á spítalann til stuðnings stjórnendum og starfsfólki og breyta skipulagi. Það hafa allir tekið þátt í að taka á innra skipulagi, allar deildir eru að taka yfirlagnir svo að þeir sem þurfa innlögn geti farið af bráðamóttöku. Eftir að hafa fengið þjónustu á deildum þá þurfa sjúklingarnir að komast annað. Það hafa allir hlaupið undir mannshönd með að efla þetta skipulag, en auðvitað rekum við okkur oft á það að mönnun sem tekur lengri tíma að byggja upp. Það er takmarkaður auður.“

Yfir 100% nýtingarhlutfall 

Willum segir að ráðuneytið fundi reglulega með stjórnendum spítalans um stöðuna. 

„Við erum í mjög nánu samstarfi um það hvað við getum gert til þess að styðja við spítalann, umfram það sem þeir eru að gera sjálfir varðandi innra skipulag og mönnun. Það má segja að við höfum verið í viðvarandi álagi,“ segir hann og nefnir í því sambandi áhrif bylgju Ómíkron-afbrigðisins, ferðamannasumarið í fyrra og síðan holskefla veirusýkinga. 

„Útsjónarsemi og viðbragð hefur bjargað stöðunni og þrautseigja starfsfólks,“ segir Willum og bætir við að það megi ekki gleymast í upplýsingaóreiðunni hvað heilbrigðisstarfsfólk hefur staðið sig vel. 

Willum bendir á að undir venjulegum kringumstæðum þurfi einn til tveir af hverjum tíu að leita á bráðamóttökuna en nú leiti þrír til fjórir af hverjum tíu þangað. 

Bráðamóttaka Landspítala í Fossvogi.
Bráðamóttaka Landspítala í Fossvogi. mbl.is/Jón Pétur

„Bráðamóttakan, þegar kemur að því að þjónusta sjúklinga svona í þeim tilvikum þar sem að þú getur þjónustað og síðan getur þú farið heim, gengur mjög vel. Þetta verður flóknara þegar margir þurfa innlögn.“

Hann segir að nýtingarhlutfall deilda spítalans sé mjög hátt, yfir 100%. 

„Líklegast er að bíta í skottið á okkur stór mynd sem við getum rakið tvo áratugi aftur í tímann um fækkun legurýma og uppbyggingu annarra úrræða. Hjúkrunarrýma, endurhæfingarrýma, hvíldarrýma og stuðning við sjálfstæða búsetu.“

Willum segir því að staða heilbrigðiskerfisins sé mögulega flóknari en umræðan getur tekið utan um á einum tímapunkti. 

Álagið orsaki ekki mikil frávik

Spurður hvort að umræðan og fréttaflutningur af stöðunni á bráðamóttöku hræði almenning, sérstaklega þegar atvik um dauðsföll eftir útskrift koma upp, segir að slík atvik sé tekin alvarlega. 

„Auðvitað tekur maður alvarlega þegar alvarleg atvik koma upp. Við höfum ákveðið verklag í kringum það. Heilbrigðisstarfsfólk og heilbrigðiskerfið tekur slíkum tilfellum mjög alvarlega,“ segir Willum en bætir við að hann geti ekki tjáð sig um einstök tilvik. 

Hann nefnir þó að það sé ekki útlit fyrir að álagið sé endilega orsaki mikil frávik. „Óháð þessu alvarlega tilviki, auðvitað slær það mann alltaf.“

Núverandi ástand strandi ekki á fjármögnun

Í viðtali við mbl.is gagnrýndi Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, orð Björns Zoëga, formanns stjórn­ar Land­spít­al­ans, að Landspítali sé vanfjármagnaður. Kári sagði að vandinn væri meðal annars skipu­lags­vandi, lé­leg­ur starfs­andi og starfs­manna­vandi.

Hver er þín afstaða? 

„Það er viðvarandi álag búið að vera. Við viðurkennum það alveg. Við tökumst á við það verkefni. Það er verkefni bæði til skemmri og lengri tíma. Ég vil meina það að kerfið okkar hafi staðist alveg feykilegt álag, betur en víða annars staðar. Við megum ekki gleyma því að þetta hefur herjað á heiminn, þessi holskefla veirusýkinga.“

Willum segir að er komi að fjármögnuninni þá vanti algjörlega inn í umræðuna staðreyndir. 

Willum nefnir sem dæmi að 60 milljarðar hafi farið til …
Willum nefnir sem dæmi að 60 milljarðar hafi farið til Landspítala árið 2017 en 100 milljarðar árið 2022. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Frá 2017 hefur aldrei verið sett jafnmikil aukning af fjármunum inn í kerfið.“

Hann nefnir sem dæmi að 60 milljarðar hafi farið til Landspítala árið 2017 en 100 milljarðar árið 2022. 

„Þetta sem við erum að kljást við núna strandar ekki á fjármögnun,“ segir Willum og bætir við að á síðasta ári hafi 18 milljarðar verið samþykktir í fjáraukalögum sem renna til heilbrigðiskerfisins, umfram það sem var á fjárlögum.

„Það var til að mæta stöðunni. Vissulega í þessu aukna álagi þá er fólk að vinna meira. Þetta lendir mikið til á sama fólkinu. Maður hefur áhyggjur af því en það var allt fjármagnað. Það hefur aldrei verið sett meira fé á milli umræðna á Alþingi inn í heilbrigðiskerfið heldur en núna, 12,5 milljarðar til stuðnings við heilbrigðiskerfið.“

Mönnunarvandi til lengri tíma 

En af hverju virðast fjármunirnir ekki skila sér í bættu ástandi á spítalanum?

„Þeir eru að gera það. Þeir gera það inn á þetta ár. Við erum að fara styrkja heilsugæsluna með þessum fjármunum. Við erum að fara styrkja spítalann,“ segir hann og bætir að tveir milljarðar fara í því að styrkja rekstrargrunn spítalans og 250 milljónir til sjúkrahússins á Akureyri. 

„Við megum ekki gleyma að álagið er líka á öllum heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni.“

Willum segir að áfram reki kerfið sig þó á mönnunarvandann sem sé lengri tíma verkefni.

Hann nefnir samstarf við háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið til að efla færnissetur og uppbyggingu menntunar fyrir heilbrigðisstéttir. 

„Þannig að við erum að gera fjölmargt og í það fara þessir fjármunir. En ég sýni því auðvitað umburðarlyndi og skilning að allar þessar upplýsingar komast ekki til skila í einu lagi á einum tímapunkti. En við verðum að gæta að sanngirni í umræðunni, sérstaklega gagnvart heilbrigðisstarfsfólki. 

Spurður hvort hann horfi því fram á bjartari tíma er kemur að heilbrigðiskerfinu á Íslandi segir Willum að ekki sé hægt að fara í verkefnin án þess að trúa á árangur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert