Vísað frá vegna annmarka ákæruvaldsins

Efnin sem fundust í timbrinu. Kókaín sem hollenska lögreglan gerði …
Efnin sem fundust í timbrinu. Kókaín sem hollenska lögreglan gerði upptæk í timbursendingu - samtals 99,25 kg. Ljósmynd/Hollenska lögreglan

Landsréttur hefur vísað frá kæru ákæruvaldsins vegna úrskurðar héraðsdóms í tengslum við skýrslugjöf fjórmenninga sem ákærðir hafa verið í stóra kókaínmálinu. Í niðurstöðu Landsréttar kemur fram að slíkir annmarkar séu á kærunni að það leiði sjálfkrafa til frávísunar.

Vildi ákæruvaldið að mennirnir myndu víkja úr dómsal á meðan þeir gæfu skýrslu fyrir aðalmeðferð málsins, en ákæruvaldið horfði til þess að þeir gætu ekki samræmt framburð og að framburður sumra gæti verið öðruvísi ef aðrir sakborningar væru í salnum.

Menn­irn­ir eru ákærðir fyr­ir að hafa reynt að smygla tæp­lega 100 kg af kókaíni til lands­ins í timb­ursend­ingu.

Héraðsdómur hafnaði þessu hins vegar og sagði í úrskurðinum að mennirnir hefðu setið í varðhaldi og eftir að einangrun var aflétt hafi þeir getað undirbúið vörn sína í sameiningu. Því fæst ekki séð að við aðalmeðferð málsins verði borin undir þá gögn sem úrslitaþýðingu geti haft og ekki lágu fyrir við rannsókn að mati dómsins. Segir þar líka að ekki sé líklegt að þessi tilhögun myndi leiða til þess að málið myndi upplýsast frekar en ella. Er því haldið sig við meginreglu um að ákærðu megi vera viðstaddir aðalmeðferðina.

Ákæruvaldið kærði þessa niðurstöðu til Landsréttar og var úrskurðurinn birtur í dag þótt hann hafi fallið í síðustu viku.

Kemur þar fram að í lögum sé mælt fyrir um að í skriflegri kæru til Landsréttar skuli greina hvaða úrskurður sé kærður, kröfu um breytingu á honum og ástæður sem kæra er reist á. „Í kæru sóknaraðila [ákæruvaldið]er í engu vikið að þeim ástæðum sem kæran er reist á en þess í stað segir aðeins að um málsástæður og lagarök vísi sóknaraðili til greinargerðar sem lögð verði fyrir Landsrétt. Samkvæmt þessu eru slíkir annmarkar á kærunni að vísa verður málinu sjálfkrafa frá Landsrétti.“

Aðalmeðferð málsins átti að hefjast 5. janúar, en hún frestaðist meðan beðið er niðurstöðu dómskvadds matsmanns vegna frekari greiningar á kókaíninu sem mennirnir eru ákærðir fyrir að hafa smyglað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka