Áform borgarinnar gengu ekki upp

Fjöldi fólk mótmælti aðgerðaleysi borgarinnar í leikskólamálum í haust.
Fjöldi fólk mótmælti aðgerðaleysi borgarinnar í leikskólamálum í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í lok árs 2022 var meðalaldur barna sem hófu leikskólagöngu í Reykjavík 18,4 mánuðir. Ljóst er að áform borgarstjórnar um að lækka meðalaldur barna við inntöku á leikskóla gengu ekki upp. 

Rétt fyrir borgarstjórnarkosningar á síðasta ári sendi Reykjavíkurborg frá sér fréttatilkynningu þess efnis að byrjað yrði að taka á móti 12 mánaða börnum haustið 2022.

„Átak í innivistarmálum og flókin staða í ráðningamálum hefur leitt til þess að meðalaldur barna sem fá pláss í leikskólum Reykjavíkurborgar hefur ekki lækkað eins mikið og vonir stóðu til um, þrátt fyrir að á síðasta ári hafi verið opnaðir fjórir nýir leikskólar og aðrir fimm skólar stækkaðir,“ segir í tilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér.

Síðasta haust var meðalaldurinn 19 mánuðir.

Ekki enn náð að manna

Leikskólamálin voru mikið í deiglunni síðasta haust. Til vekja athygli á þeim fjölda barna sem beið eftir leikskólaplássi mættu foreldrar með börn sín í Ráðhús Reykjavíkur og kröfðu borgarfulltrúa um svör. Sömuleiðis var aðgerðaleysi borgarstjórnar mótmælt. 

Viku eftir fyrstu mótmælin í Ráðhúsinu kynnti borgarstjórn sex tillögur að leikskólavandanum.

Degi áður en að tillögurnar voru kynntar greindi mbl.is frá því að um 200 leikskólapláss væru laus hjá borginni en ekki væri hægt að nýta þau vegna manneklu. Svo viðist sem að borgin hafi enn ekki náð að leysa vandann.

„Misjafnlega hefur gengið að fylla lausar stöður í leikskólum borgarinnar eins og annars staðar á landinu. Lausar stöður og mikil hreyfing á vinnumarkaði hefur valdið auknu álagi á starfsstöðvum. Þetta hefur áhrif á nýtingu á um 200 leikskólaplássum í Reykjavík,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert