„Erum engu nær“

Leitað verður áfram að Modestas.
Leitað verður áfram að Modestas. Samsett mynd

„Við erum engu nær eftir fjölmenna leit í dag,“ segir Ásmundur Kr. Ásmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn lögreglunnar á Vesturlandi. Kafarar leituðu Modestas Antanavicius við strandlengjuna nærri Borgarnesi.

Um 150 manns leituðu í dag á stóru svæði í Borgarfirði og Borgarnesi en leit hefur verið hætt í dag.

Við erum að fara yfir upptökur og gögn. Við erum að bíða eftir vísbendingum en erum engu nær eftir fjölmenna leit í dag,“ segir Ásmundur. Skoðuð hafi verið svæði sem leitarhundar hafa beint björgunarfólki á.

Kafarar sérsveitarinnar tóku þátt

Kafarar sérsveitar ríkislögreglustjóra tóku þátt í leitinni í dag. Björgunarsveitir munu taka þátt í áframhaldandi leit að Modestas á morgun en ekki er gert ráð fyrir köfun.

„Á morgun verður ekki jafn fjölmenn leit en við erum enn að leita. Nú eigum við mikið af upptökum úr drónum sem við þurfum að fara yfir og eftir það metum stöðuna væntanlega aftur.“ 

Hann segir að sá möguleiki sé fyrir hendi að Modestas hafi yfirgefið Borgarnes en lögreglan hefur miðað leit sína við bæinn. Sást hann síðast þar á laugardaginn fyrir viku síðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert