Glæran ekki í kennslukerfi skólans

Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor MS, segist ekki hafa séð glæruna …
Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor MS, segist ekki hafa séð glæruna áður. Samsett mynd

Helga Sigríður Þórsdóttir, rektor Menntaskólans við Sund, segist ekki vita hvaðan glæra, sem Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, birti á Facebook-síðu sinni í gær, kemur og segir hana ekki vera í kennslukerfi skólans.

Í færslu sinni segir Elliði að glæran sé úr MS og að Sjálfstæðisflokknum sé líkt við Þýskaland Hitlers, Gestapo og kynþáttahatur.

„Glæran er frekar óskýr, það sést ekki alveg hvað stendur á henni og hún er tekin úr samhengi þannig að ég veit ekki hvað var verið að kenna og með hvaða hætti,“ segir Helga í samtali við mbl.is.

Meinta glæran úr MS.
Meinta glæran úr MS.

Glæran tekin úr samhengi

Helga segist munu kynna sér málið betur eftir helgi.

„Ég mun skoða þetta og ef okkar nemendur eru óánægðir með kennsluhætti eða annað þá vita þeir að þeir geta alltaf leitað til okkar og við vinnum í slíkum málum með okkar starfsfólki. Ég hef aldrei fengið neina kvörtun eða neitt slíkt yfir þessari glæru og ég hef ekki séð hana áður.“

Bendir Helga á að þegar glæra sé tekin úr samhengi sé ekki hægt að vita um hvað verið er að fjalla.

Menntaskólinn við Sund.
Menntaskólinn við Sund. mbl.is/Árni Sæberg

Það vakti athygli fyrr í vikunni þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, birti mynd af glæru úr kennslustund Verzlunarskóla Íslands á Facebook-síðu sinni þar sem honum var stillt upp við hlið Adolfs Hitlers og Benítós Mússólínís.

Skólastjóri Verzlunarskólans sagði glæruna hafa verið setta fram til að kveikja umræður í stjórnmálafræðitíma um ólíkar birtingarmyndir þjóðernisstefnu og að glæran hefði verið tekin úr samhengi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert