Handteknir með skotvopn á hóteli

Sérsveit ríkislögreglustjóra aðstoðaði við aðgerðirnar.
Sérsveit ríkislögreglustjóra aðstoðaði við aðgerðirnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrír aðilar voru handteknir á hóteli í miðbæ Reykjavíkur um hálfáttaleytið í gærkvöldi. Þeir reyndust vera með skotvopn, skotfæri og fíkniefni í fórum sínum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu naut aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra við aðgerðirnar. Aðilarnir voru vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Lögreglan viðhafði eftirlit með veitingahúsum í miðbænum í gærkvöldi og í nótt. Nokkrir staðir voru kærðir fyrir að vera annað hvort ekki með dyraverði eða með dyraverði án réttinda við störf.

Eignaspjöll á grunnskóla

Laust fyrir klukkan níu í gærkvöldi var tilkynnt um eignaspjöll á grunnskóla í austurborginni. Þar höfðu ungmenni valdið skemmdum með flugeldum, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Um svipað leyti var tilkynnt um ungmenni að leika með eld við grunnskóla í austurhluta borgarinnar. Er lögreglan kom á staðinn var engan eld að sjá.

Ljós á glæfralegum stað

Tilkynnt var um ljós á glæfralegum stað í Úlfarsfelli um níuleytið í gærkvöldi. Þegar lögreglan kannað málið reyndist þetta vera fólk á skíðum.

Um hálfeittleytið í nótt var tilkynnt um innbrot í Breiðholtinu. Meintur gerandi var farinn af vettvangi þegar lögreglan mætti á staðinn.

Í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði og Garðabæ voru tveir handteknir í gærkvöldi og í nótt. Annar þeirra var tekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis en hinn vegna akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert