„Hugmyndin var sú að reyna að fá sem bestan skilning og sýn á stöðu málaflokksins og að það myndi vera sem breiðust sátt um niðurstöðurnar,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, sérfræðingur í bráðalækningum, sem leiddi viðbragðstreymi heilbrigðisráðuneytisins um bráðaþjónustu í landinu, í samtali við mbl.is.
Heilbrigðisráðherra kynnti skýrslu hópsins fyrir ríkisstjórninni í gærmorgun en þar eru lagðar fram 39 tillögur að úrbótum.
Jón Magnús nefnir að verklag teymisins hafi verið öðruvísi en venjan er, en teymið samanstóð af 47 lykilaðilum sem koma beint og óbeint að bráðaþjónustu á landinu öllu.
Hann segir að sátt innan teymisins um niðurstöðurnar hafi tekist mjög vel. „Það var mjög mikill samhugur og samsýn í hópnum, þrátt fyrir að hann hafi verið svona stór. Við teljum okkur hafa náð nokkuð vel utan um málin. Þó skulum við nú vera fyrst til að viðurkenna að þessi listi tillagna er ekki tæmandi.“
Jón segir að markmið skýrslunnar sé ekki að leysa úr vanda bráðamóttöku Landspítala og að vinnan hafi verið unnin með það í huga að sú vinna fari fram annars staðar, og nefnir þá sérstaklega mönnunarvandann og fjármögnun.
„Heldur í raun og veru að setja framtíðarsýn hvernig við viljum hafa bráðaþjónustu fyrir landið í heild sinni,“ segir hann og bætir við að mönnun og fjármagn sé þó forsenda góðrar bráðaþjónustu.
„Niðurstöðurnar í þessari vinnu voru í stórum dráttum þær að það er mjög mikill munur á aðstöðu og bráðaþjónustu á landinu, á mismunandi starfsstöðvum. Af ýmsum ástæðum.“
Jón segir eina af meginástæðuna vera að það hafi ekki verið settur upp kerfisbundinn rammi um hvaða þjónustu sé hægt að veita á tiltekinni tegund móttöku, þ.e.a.s. hvaða þjónustu er hægt að veita á lítilli heilsugæslustöð utan höfuðborgarsvæðisins, hvaða þjónustu er hægt að veita á sjúkrahúsi utan höfuðborgarsvæðisins o.s.frv..
„Við fórum yfir allar starfsstöðvar heilbrigðisstofnanna á Íslandi og settum upp lágmarkstækjabúnað og lágmarksfærni sem þyrfti að vera til staðar á þessum mismunandi stöðum.“
Jón segir að í því samhengi hafi heilbrigðisráðuneytið brugðist fljótt við og veitt aukið fjármagn í tækjakaup.
„Hitt sem við fundum líka er að það hefur minnkað heilbrigðisþjónusta um allt land á síðustu áratugum. Það hefur verið lagt meiri kröfur á sjúkraflutninga, hvort sem það er með sjúkrabílum eða sjúkraflugi á þyrlum Landhelgisgæslunnar.“
Jón bendir einnig á að illa hefur gengið að manna heilsugæslustöðvar heilbrigðisstofnanna um allt land.
„Það er því mjög misreynt fólk sem er að sinna bráðaþjónustu um allt land. Því varð til mjög vel mótuð og skilgreind hugmynd í viðbragðsteyminu um það að koma á fót faglegri fjarþjónustu. Til þess að styðja við alla viðbragðsaðila á landinu. Til þess að reyna lyfta upp þjónustunni, bæði til að auka gæði þjónustunnar fyrir þá sem nota þjónustuna, en líka til þess að efla þá sem veita þjónustuna. Með því reyna að stuðla að fleiri treysti sér í það að vera starfandi við bráðaþjónustu um allt land,“ greinir hann frá.
En aftur að bráðamóttöku Landspítala. Í skýrslunni segir um þjónustuna þar:
Viðbragðsteymið telur því ekki tilefni til að ráðleggja breytingar á skipulagi bráðamóttöku Landspítala en hvetur til þess að staðinn sé vörður um kjarnahlutverk hennar og áfram leitað allra leiða til að takmarka eftir fremsta megni fjölda sjúklinga sem bíða umfram 6 klukkustundir eftir innlögn...
„Það sem kemur mjög berlega í ljós, og hefur svo sem gert áður, er að orsök vanda á bráðamóttöku Landspítala liggur ekki í tækjabúnaði, eða deildinni eða húsnæði – og lengi vel var það heldur ekki í mönnun, þó að það hefur svolítið versnað síðustu tvö ár.
Heldur er vandi bráðamóttöku Landspítala vegna skorts annarsstaðar í kerfinu. Okkur hefur ekki tekist að byggja upp nægilega mikla og góða þjónustu fyrir einstaklinga sem eru með færniskerðingu, hvort sem það er út af öldrun eða af öðrum orsökum. Sem gerir það að verkum að þeir þurfa að vera of lengi á Landspítala. Sem verður til þess að Landspítali fyllist og sjúklingar sem þurfa að leggjast inn á spítalann komast ekki upp á legudeildir.“
Jón bætir við að meginvandi bráðamóttökunnar felist því ekki í þeim einstaklingum sem leiti þangað, heldur í þeim sem komast ekki á legudeildir og því komist þeir ekki af bráðamóttökunni.
„Þess vegna fannst hópnum ekki rétt að leggja til breytingar á skipulagi bráðaþjónustunnar. Vegna þess að það var enginn stór vandamál í því skipulagi.“
Jón minnist á að lítið hefur verið fjallað um stöðu bráðaþjónustu utan Landspítala. „Það hefur svolítið drukknað í þeim miklu erfiðleikum sem bráðamóttaka Landspítala hefur verið í.“
Spurður hvort að það hefði þurft að grípa fyrr inn í segir Jón það vera tilfellið með Landspítala en hann hafi ekki forsendur til þess að svara því fyrir landið allt.
„Við sjáum með fleiri og fleiri tómstundabyggðum og ferðamönnum og svo framvegis, að það verður sífellt meira álag á bráðaþjónustuna utan höfuðborgarsvæðisins,“ segir Jón og bætir við að því sé mikilvægt að efla sjúkraflutninga og heilbrigðisstofnanir um allt land til þess að sinna bráðaþjónustu.
„Það held ég að við hefðum gjarnan geta gert aðeins fyrr.“
Ertu vongóður um að tillögunum verði fylgt eftir?
„Það var ein af megináherslum hópsins, að tillögurnar sem kæmu út úr honum yrðu vel ígrundaðir og vel skilgreindar. Þannig það væri auðvelt fyrir viðeigandi aðila að fara eftir þeim. Það eru í skýrslunni tiltölulega fáar tillögur sem kosta eitthvað verulegt fé. Mest snýst þetta um skipulag, skilgreiningar og gæðavísa. Stöðlun, sem skilar alveg heilmiklu en við vonumst innilega til þess að þær fáu tillögur sem fela í sér aukinn kostnað fái framgang,“ segir Jón að lokum.