Tap eftir hræðilegan lokakafla

Ísland mátti þola tap fyrir Ungverjalandi, 28:30, í öðrum leik sínum í D-riðli á HM karla í handbolta í Kristianstad í Svíþjóð í kvöld. Tapið þýðir að leið Íslands í átta liða úrslitin verður erfiðari.

Ísland var sex mörkum yfir um tíma í seinni hálfleik, en leikur liðsins hrundi á lokakaflanum og því fór sem fór.

Ungverjaland er á toppi riðilsins með fjögur stig, Ísland og Portúgal koma þar á eftir með tvö, á meðan Suður-Kórea rekur lestina án stiga. 

Ungverjar skoruðu fyrsta markið, en Bjarki Már Elísson sá um að skora næstu þrjú mörk leiksins og breyta stöðunni í 3:1. Ísland var með lítið forskot næstu mínútur, allt þar til Ungverjar jöfnuðu í 7:7.

Í stöðunni 8:8 hrökk Björgvin Páll Gústavsson í gang í markinu og íslenska liðið skoraði næstu fimm mörk og var staðan 13:8 þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Munurinn var einmitt fimm mörk í hálfleik, 17:12, og íslenska liðið í fínum málum.

Bjarki Már var markahæstur íslenska liðsins með fimm mörk og Ómar Ingi Magnússon gerði fjögur. Björgvin Páll Gústavsson varði sjö skot í markinu, þar af eitt vítakast.

Íslenska liðið hélt frumkvæðinu framan af í seinni hálfleik og virtist vera komið í afar góð mál þegar liðið var með sex marka forskot, 19 mínútum fyrir leikslok, 25:19.

Ungverjar neituðu hins vegar að gefast upp, skoruðu næstu fjögur mörk, og minnkuðu muninn í tvö mörk, 25:23, þegar seinni hálfleikur var hálfnaður.

Þá tók Guðmundur Guðmundsson leikhlé og Ísland komst aftur í fjögurra marka forskot í kjölfarið, 27:23, þegar rúmar tíu mínútur voru til leiksloka.

Sem fyrr neituðu Ungverjar að gefast upp, því þeir minnkuðu muninn aftur í tvö mörk, 27:25, og stefndi í mikla spennu á lokakaflanum.  

Ungverjar minnkuðu muninn í eitt mark sex mínútum fyrir leikslok, 28:27 og jöfnuðu svo í 28:28. Var það í fyrsta skipti frá stöðunni 8:8 sem var jafnt. Staðan var því hnífjöfn þegar fimm mínútur voru til leiksloka.

Ungverjar komust yfir í fyrsta sinn síðan í stöðunni 1:0 í kjölfarið, 29:28, og komust síðan tveimur mörkum yfir, 30:28, þegar aðeins tvær og hálf mínúta var til leiksloka. Íslandi tókst ekki að jafna eftir það. 

Bjarki Már Elísson skoraði níu mörk fyrir Ísland og Ómar Ingi Magnússon gerði sjö. Elliði Snær Viðarsson kom þar á eftir með fjögur. Björgvin Páll Gústavsson varði tíu skot í markinu, þar af eitt víti. 

Lokaleikur Íslands í riðlinum er á mánudaginn kemur gegn Suður-Kóreu.

Ísland 28:30 Ungverjaland opna loka
60. mín. Roland Mikler (Ungverjaland) varði skot Þriðja varslan í röð frá Bjarka. Hann er alveg búinn að lesa hann.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka