Um 150 manns leita Modestas í dag

Modestas Ant­ana­vicius.
Modestas Ant­ana­vicius. Ljósmynd/Lögreglan

Umfangsmikil leit að Modestas Antanavicius, 46 ára karlmanni sem ekkert hefur spurst til síðan laugardaginn 7. janúar, hefur haldið áfram í dag og eru nú um 150 manns að leita.

„Það er leitað á sjó og landi með drónum og öllum þeim björgum sem við höfum,“ segir Einar Jóel Ingólfsson, formaður svæðisstjórnar hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, í samtali við mbl.is.

Leitað er á mjög stóru svæði í kringum Borgarfjörð og Borgarnes, að sögn Einars. „Það er leitað alls staðar og reynt að komast til botns í þessu máli.“

Björgunarsveitarmenn leita Modestas við Borgarnes.
Björgunarsveitarmenn leita Modestas við Borgarnes. mbl.is/Theodór Kr. Þórðarson

Fólk skoði sumarbústaði sína

Hann segir fáar ábendingar hafa borist og er síðast vitað um ferðir Modestas klukkan 17 á laugardaginn fyrir viku á Olís í Borgarnesi, en hann er búsettur í bænum.

Þá hafa upptökur úr eftirlitsmyndavélum ekki veitt frekari vísbendingar.

Bæjarbúar hafa verið beðnir um að skoða nærumhverfi sitt, auk þess að sumarbústaðaeigendur skoði sína bústaði í kringum Borgarnes. „Það mun hjálpa okkur alveg helling ef fólk gerir það,“ segir Einar.

Segir hann að leitað verði fram eftir degi á meðan það er bjart. „Við leitum á meðan birta er og við tökum stöðuna eftir daginn hvernig framhaldið verður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert