Skýrslur verða teknar síðar í dag af aðilunum þremur sem voru handteknir í gærkvöldi með skotvopn, skotfæri og fíkniefni í fórum sínum á hóteli í miðborg Reykjavíkur. Þeir voru gestir á hótelinu, að sögn Ásmundar Rúnars Gylfasonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Tilkynning barst lögreglunni um að grunur væri um að aðilar á hóteli í miðborginni væru með skotvopn undir höndum. Í ljósi þess að um skotvopn var að ræða naut lögreglan liðsinnis sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Aðgerð lögreglunnar á vettvangi tók um eina og hálfa klukkustund.
„Tilkynningin er könnuð og það leiðir af sér að þrír eru handteknir. Málið er komið í öruggan farveg,“ segir Ásmundur Rúnar og bætir við að það muni skýrast betur að loknum skýrslutökum.
Hann tekur fram að engin hætta hafi verið á ferð á hótelinu og að engum hafi verið hótað. Spurður vill Ásmundur ekki greina frá því hvers konar vopn aðilarnir voru með í fórum sínum.