Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir að ný þjóðarhöll sé enn á þeirri tímaáætlun sem þótti bjartsýn er hún var kynnt. Hann er sjálfur bjartsýnn á að framkvæmdahraðinn verði samkvæmt áætlun en segir að ekki megi mikið út af bera.
„Það var sagt við mig að ég væri bjartsýnn að það væri hægt að ljúka frumathugun á örfáum mánuðum. Með gríðarlega góðri vinnu framkvæmdarnefndar undir forystu Gunnars Einarssonar, fráfarandi bæjarstjóra Garðabæjar, þá er það að takast. Við erum enn á þeirri tímalínu sem ég sagði í upphafi og var sagt að væri mjög bjartsýn, ég er mjög bjartsýnn á að hún takist, en það má ekkert mikið út af bera og það gerir kröfur til okkar allra. Alveg sama hvort við erum ríki, borg, skólar, íþróttafélög eða hönnunaraðilar, það er allra að leggja sitt af mörkum. Þannig eigum við að nálgast verkefnið vegna þess að þetta er þjóðarhöll og við eigum öll að leggja okkar af mörkum,“ segir Ásmundur Einar í samtali við mbl.is að loknum blaðamannafundi í dag um byggingu nýrrar þjóðarhallar í Laugardalnum.
Hvorki Dagur B. Eggertsson borgastjóri né Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra gátu sagt til um það hvernig þeim fyndist að skipting ríkis og borgar ætti að vera er kemur að kostnaði við framkvæmd þjóðarhallarinnar. Er það hluti þeirrar vinnu sem er fram undan hjá framkvæmdanefndinni.
Ásmundur segir það spila inn í hvernig rekstrarform verður á höllinni og hverjir koma að því.
„Sjáum við fyrir okkur að þetta verði bara ríki og borgin eða sjáum við fyrir okkur samspil við Sýningarhöllina sem er niðri í Laugardal, sem mér finnst mjög spennandi nálgun?“ spyr Ásmundur.
Telur þú að kostnaður lendi í ríkari mæli á ríkinu heldur en á borginni vegna fjárhagsvanda borgarinnar?
„Bæði ríki og sveitarfélög glíma við áskorannir í rekstri en við erum að horfa upp á að verkefni eins og þetta, ný þjóðarhöll, sem íþróttalífið er ekki bara að kalla eftir, heldur er einfaldlega nauðsynlegt að verði til þess að við töpum meðal annars ekki landsleikjunum okkar úr landi,“ segir Ásmundur.
„Ég held það sé fátt sem þjóðin gerir jafnríka kröfu um á okkur stjórnmálamenn, hvort sem við erum hjá ríki eða borg, að við nálgumst þetta verkefni miðað við það að geta lokað því.“
Ásmundur segir að horfa verði til framtíðar enda sé þjóðarhöllin byggð til næstu áratuga og hann treystir því að báðir aðilar sem komi að þessu verki geri það með það að markmiði að finna lausnir.
„Menn væru ekki að samþykkja það að setja af stað útboðsvinnu, hönnunarvinnu, og deiliskipulagsvinnu nema við værum sannfærð um að við næðum saman. Það er vegna þess að það er byrjað að byggjast upp gott traust, bæði í framkvæmdanefndinni og ráðgjafarhópnum,“ segir Ásmundur Einar.