Rafmagnslaust er á öllum Suðurnesjum eftir að Suðurnesjalínu sló út. Þetta kemur fram á vefsíðu HS veitna, en mbl.is heyrði frá íbúa sem sagði rafmagnið farið af hjá öllum á svæðinu. Líklega mun viðgerð taka allavega klukkustund og mögulega eitthvað lengur.
Landsnet á og rekur Suðurnesjalínu. Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir í samtali við mbl.is að fyrst hafi línan leyst út klukkan 15:12. Í smá tíma hafi tekist að halda rafmagninu inni með svokölluðum eyjarekstri, en þá eru virkjanir á svæðinu sem sjá um notkunina innan svæðisins. Í þessu tilfelli er um að ræða Reykjanesvirkjun og Svartsengi. Steinunn segir að það hafi hins vegar bara haldið í smá tíma.
Starfsfólk frá Landsneti hefur þegar verið sent í tengivirkin í Hamranesi og á Fitjum, en þau eru á sitt hvorum enda línunnar. Steinunn segir enn of fljótt að segja til um hvað hafi valdið biluninni, en að vonandi komi það fljótlega í ljós.
Uppfært 15:48: Samkvæmt fyrstu skoðun virðist sem það hafi orðið bilun í eldingavara í tengivirkinu í Fitjum. Steinunn segir að viðgerð muni taka einhvern tíma og líklega meira en klukkustund. Ekki sé þó hægt að segja nákvæmlega til um hversu lengi og gæti það orðið eitthvað lengur.
Fréttin hefur verið uppfærð.