Ríkisendurskoðun vill að ráðuneytið bregðist við

Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi.
Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi. Eggert Jóhannesson

Einungis 2,2% dómsekta á árunum 2014-2018, sem voru hærri en 10 milljónir króna, höfðu verið greiddar í árslok árið 2021. 

Frá þessu er greint í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun en stofnunin hefur lokið við skýrslu um innheimtu dómsekta. Heildarfjárhæð dómsekta yfir 10 milljónum á umræddu tímabili var 5,7 milljarður. Ríkisendurskoðun segir því að til mikils sé að vinna að bæta innheimtuhlutfallið. 

„Ríkisendurskoðun telur brýnt að dómsmálaráðuneyti bregðist við lágu innheimtuhlutfalli dómsekta og hvetur ráðuneytið til að flýta, eins og kostur er, efnislegri meðferð á skýrslu framangreinds starfshóps og taka afstöðu til þeirra tillagna sem þar koma fram því til mikils er að vinna að bæta innheimtuhlutfall dómssekta,“ segir meðal annars í tilkynningunni. 

Jafnframt kemur fram að árangur innheimtu sé svipaður og þegar gerð var úttekt árið 2009. 

„Ríkisendurskoðun hefur lokið stjórnsýsluúttekt á stöðu innheimtu dómsekta. Úttektin leiddi í ljós að lítil sem engin breyting hefur orðið á árangri innheimtu frá því embættið skoðaði sama málaflokk árið 2009. Í millitíðinni skipaði dómsmálaráðherra, samkvæmt fyrirmælum í lögum, starfshóp sem ætlað var að endurskoða úrræði yfirvalda til innheimtu sekta og sakarkostnaðar í þeim tilgangi að bæta innheimtuhlutfall. Starfshópurinn skilaði skýrslu í árslok 2018 og lagði fram níu tillögur til úrbóta. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki brugðist við með formlegum hætti og ekki liggur fyrir markviss afstaða ráðuneytisins í þessum málum.“

Skýrslan

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert