„Þetta er í eðli sínu viðskiptasamningur við stærsta viðskiptavin Ljósleiðarans. Þannig mál eru almennt á borði þeirra sem stjórna Ljósleiðaranum, framkvæmdastjóra og stjórnar,“ segir Gylfi Magnússon, formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur.
Rýnihópur Reykjavíkurborgar um hlutafjáraukningu Ljósleiðarans, dótturfélags OR, sem skipaður er borgarfulltrúum úr minnihluta, fær ekki að sjá kaupsamning um þriggja milljarða kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar. Spurður hvað standi í vegi fyrir birtingu samingsins segir Gylfi:
„Stjórn OR hefur fengið ágætar upplýsingar um það hvað felst í þessum samningi, hver áhrif hans eru og fjárhagsleg áhætta og slíkt. Það eru fullnægjandi upplýsingar til þess að sinna eftirlits- og stefnumótunarskyldu stjórnarinnar. Það er hins vegar annað mál að þetta eru viðkvæmar viðskiptalegar upplýsingar sem liggja í samningi sem þessum, bæði fyrir Ljósleiðarann og fyrir Sýn. Og almennt eru slíkir samningar ekki gerðir opinberir.“ Gylfi viðurkennir þó að samningurinn skipti talsverðu máli, bæði fyrir Ljósleiðarann, Sýn og fjármagnsþörf Ljósleiðarans. „En rýnihópurinn horfir ekki einungis til þessa samnings heldur annarra þátta líka varðandi fjármagnsþörf Ljósleiðarans í framtíðinni.“
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks segir að sér hafi ítrekað verið synjað um aðgang að kaupsamningnum. „Ljósleiðarinn er ekki að fjármagna kaupin með handbæru fé. Það verður tekið lán fyrir þessu. Og þá þýðir það að þetta verði nokkurra milljarða króna lántaka til viðbótar, sem fer undir samstæðureikning borgarinnar. Ég tel að þegar verið er að bæta nokkrum milljörðum króna við fjárhagsáætlun, þá ætti að ræða það í borgarstjórn.“ Söluhagnaður Sýnar af kaupunum nam 2,4 milljörðum króna, að því er fram kom í tilkynningu Sýnar um kaupin.