Talin hafa kafnað eftir að drykk var þröngvað niður

Hjúkrunarfræðingurinn var starfsmaður á geðdeild 33C á Landspítalanum.
Hjúkrunarfræðingurinn var starfsmaður á geðdeild 33C á Landspítalanum. mbl.is/Unnur Karen

Embætti héraðssaksóknara hefur ákært hjúkrunarfræðing fyrir manndráp í opinberu starfi og brot á lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Er konan ákærð fyrir að hafa svipt konu á sextugsaldri lífi með því að hafa þröngvað ofan í hana næringardrykk á meðan konunni var haldið niðri. Olli þetta því að drykkurinn fór í loftveg konunnar þannig að hún kafnaði.

Í ákæru málains kemur fram að atvikið hafi átt sér stað 16. ágúst árið 2021, en áður hefur komið fram í umfjöllun fjölmiðla að hjúkrunarfræðingurinn hafi starfað á geðdeild 33C á Landspítalanum.. Er því lýst þannig að hjúkrunarfræðingurinn hafi hellt innihaldi úr tveimur flöskum af næringardrykk ofan í konuna. Samkvæmt fyrirskipun hjúkrunarfræðingsins var konunni haldið niðri á meðan þrátt fyrir að konan gæfi til kynna að hún vildi ekki drykkinn. Hafnaði drykkurinn ofan í loftvegi konunnar, sem hindraði loftflæði um lungun og olli öndunarbilun og köfnun.

Af hálfu aðstandana konunnar er farið fram á miskabætur upp á 15 milljónir auk kostnaðar, m.a. 2,8 milljóna áföllnum lögfræðikostnaði.

Hjúkrunarfræðingurinn er talinn hafa brotið gegn 211. gr. almennra hegningarlaga, en sú grein fjallar um manndráp. Þá er einnig talið að brot hennar falli undir 138. gr. sömu laga, en þar kemur fram að þegar opinber starfsmaður hafi gerst sekur um refsilagabrot með verknaði sem verði að teljast misnotkun á stöðu sinni, þá sé bætt allt að helmingi við refsinguna.

Að lokum er vísað til brota á 1. mgr. 13. greinar og 28. greinar laga um heilbrigðisstarfsfólk. Hljóða þær eftirfarandi:

13. gr. Faglegar kröfur og ábyrgð.

Heilbrigðisstarfsmaður skal sýna sjúklingi virðingu og sinna störfum sínum af árvekni og trúmennsku og í samræmi við faglegar kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma.

28. gr.Refsingar.

Brot gegn ákvæðum laga þessara og reglna sem settar eru á grundvelli þeirra varða sektum eða fangelsi allt að þremur árum.

Með brot gegn lögum þessum skal farið samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka