Ábyrgðin á langvarandi töfum „fyrst og fremst Landsnets“

Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Voga, ræddi við mbl.is um Suðurnesjalínu.
Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Voga, ræddi við mbl.is um Suðurnesjalínu.

„Það á sér engar stoðir í raunveruleikanum,“ segir Gunnar Axel Axelsson, í samtali við mbl.is um þá nálgun Landsnets að tafir á Suðurnesjalínu 2 séu allar af ástæðum sem snúa að sveitarfélaginu Vogum.

Rafmagnsleysi á Reykjanesi í gær hefur leitt til enn frekari deilna um tafir á lagningu  Suðurnesjalínu 2.

Ekki viljað veita framkvæmdaleyfi

Umræða um raforkulínuna hefur varað í mörg ár en sveitar­fé­lagið Vogar hefur ekki viljað veita Lands­neti fram­kvæmda­leyfi fyrir loft­línu. Vogar vilja jarð­streng en hin sveitar­fé­lögin á Suður­nesjum hafa þegar veitt Lands­neti framkvæmdaleyfi fyrir loft­línu.

„Rafmagnsleysi er aldrei gott. Það hafði áhrif á íbúa hér eins og í öðrum sveitarfélögum á svæðinu,“ segir Gunnar og bætir við að sem betur fer hafi ekki orðið neinn sérstakur skaði af rafmagnsleysinu, nema kannski að fólk hafi misst af handboltaleiknum.

„Þetta er auðvitað alvarlegt mál og ýmislegt sem kom út úr þessu sem var kannski óvænt. Til dæmis það að hér var símasambandslaust á Reykjanesinu að miklu leyti. Sem að ég held að enginn hafi átt von á og flestir hafi talið að símafyrirtækin væru með varaafl til þess að keyra símtengingar.

Og svo hitt að það var líka heitavatnslaust á svæðinu í mun lengri tíma en rafmagnsleysið varði. Sem er líka nokkuð sem er ástæða til þess að skoða. Hvers vegna eru HS Veitur ekki með varaafl til þess að tryggja hitaveitu á svæðinu þegar og ef verður rafmagnslaust?“

Skipulagsnefnd fundar um málið í dag 

Gunnar segir eðlilegt að spurningar vakni um Suðurnesjalínu 2 er svona rafmagnsleysi verður. 

Hann segir að fyrir algjöra tilviljun verði fjallað um málið í skipulagsnefnd sveitarfélagsins í dag. „Það er kannski táknrænt á einhvern hátt.“

Gunnar segir að málið sé í eðlilegum farvegi og í efnislegri meðferð hjá skipulagsnefnd. 

„Skipulagsnefnd er í dag meðal annars að fara yfir nýframkomna umsögn Landsnets, sem Landsnet skilaði til sveitarfélagsins fyrir nákvæmlega viku síðan.“

Býst þú við að niðurstaða fáist í málið á fundinum?

„Það er ekki hægt að segja til um það – hver niðurstaða nefndarinnar verður í dag. Hún er að fjalla um þessi framlögðu gögn og þetta er ekki ákvörðun – eins og gefur að skilja – sem er tekin í einhverju bríaríi,“ segir Gunnar og bætir við að um stóra og flókna ákvörðun sé að ræða sem hafi víðtæk áhrif á hagsmuni fólks á svæðinu.

Leiðir rafmagnsleysið í gær ekki til þrýstings á að ákvörðun verði tekin?

„Nei, það væri mjög óeðlilegt og ekki í samræmi við okkar lögbundna hlutverk, ef rafmagnsleysið í gær hefði áhrif á slíka ákvarðanatöku. Ég held að það myndi einhver gera athugasemd við það.“

Ekki hægt að skella ábyrgðinni á sveitarfélögin

Gunnar segir að staðan sé fullkomlega óásættanleg og að niðurstaða þurfi að nást í málið. 

„Ég vil þó minna á að þetta er ekki ný staða. Verkefni Suðurnesjalínu er búið að vera í burðarliðnum í bráðlega tvo áratugi. Það er algjörlega fráleitt svona í ljósi aðstæðna að ætla að fara skella langvarandi töfum á henni á eitt sveitarfélag, eða bara á sveitarfélögin yfir höfuð að mínu mati. Ábyrgðin á þessum langvarandi töfum er fyrst og fremst Landsnets. Sem hefur ítrekað verið rekið til baka með þessi áform sín á síðustu 16 eða 17 árum. Það er ekki hægt að finna þess dæmi í rauninni fyrr en núna árið 2021 sem málið kemur til kasta sveitarfélagsins Voga.“

Gunnar nefnir að það liggi einfaldlega ekki fyrir hvort Suðurnesjalína 2 hefði komið í veg fyrir rafmagnsleysið í gær. 

Virkjanir tryggt raforkuöryggi

Gunnar segist taka undir spurningar í yfirlýsingu Landverndar um það af hverju virkj­an­ir í Svartsengi og á Reykja­nesi geti ekki starfað án teng­ing­ar við aðra hluta lands­kerf­is­ins. Virkj­an­irn­ar séu nógu stór­ar til að mæta eft­ir­spurn.  

„Ég veit að íbúar hérna á svæðinu spyrja sig þeirrar spurningar. Hvers vegna er ekki fyrir löngu búið að koma hlutum þannig fyrir að þó flutningslínur til og frá svæðinu bregðist, að þá geti virkjanir á svæðinu ekki haldið uppi raforkuöryggi? Það er tæknilegt úrlausnarefni sem er algjörlega raunhæft að leysa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert