„Heiðarlegra að segja það hreint út“

Stefán Pálsson
Stefán Pálsson Ljósmynd/mbl.is

„Ef hugsunin á bak við hlutafjáraukninguna er í raun að koma félaginu alfarið úr samfélagslegri eigu væri heiðarlegra að segja það hreint út,“ sagði Stefán Pálsson, borgarfulltrúi Vinstri grænna í umræðum um málefni Ljósleiðarans sem loksins fengu umfjöllun í borgarstjórn í dag.

Stefán sagði það gæfu Reykjavíkur og til marks um framsýni stjórnenda Orkuveitu Reykjavíkur á síðustu öld, þegar ákveðið var að líta á ljósleiðaranet sem kerfislægt innviðakerfi sem myndi innan skamms tíma verða jafn mikilvægt þorra almennings og fyrirtækja og þau veitukerfi sem fyrirtækið rak þá þegar.

„Það var ekki óhjákvæmilegt á sínum tíma því við völd var hægri stjórn í landinu sem vann að því að koma hinu opinbera út úr rekstri á þessu sviði.“

Stefán sagði að kostnaður við fjarskiptaþjónustu hafi verið samkeppnishæfur hér á landi í samanburði við nágrannalöndin og sagði það alls ekki vera svo á öllum sviðum samfélagsins og sagði að hlutfall heimila sem tengd eru ljósleiðara væri hæst hér á landi sem aftur hafi leitt til aukinna lífsgæða.

Blandað eignarhald veldur áhyggjum

Hann sagði að áformin um hlutafjáraukningu Ljósleiðarans myndu þýða blandað eignarhald sveitarfélaganna og nýrra fjárfesta og sagði það valda áhyggjum og sagði ljóst að ekki ætti með hlutafjáraukningunni að styrkja þjónustu Ljósleiðarans á starfssvæði þess heldur til að ráðast í ljósleiðaraverkefni utan sveitarfélaganna sem standa að Orkuveitu Reykjavíkur.

Hann sagðist efast um að verkefnið væri fýsilegt enda hefði líklega verið stofnað nýtt félag í kringum verkefnið hefði það verið talið arðbært.

Líkti sambandi eigenda og fyrirtækja borgarinnar við barnauppeldi

Þá sagði Stefán vont í samfélagslegum rekstri ef ekki væri hægt að ræða málefni viðkomandi félags frjálst fyrir opnum tjöldum á vettvangi kjörinna fulltrúa eigenda þess og spurði sig hvort boðleiðirnar séu ekki orðnar ívið of langar milli borgarstjórnar og dótturfyrirtækja Orkuveitunnar og hvort að stjórnir dótturfyrirtækjanna séu ekki farnar að ganga of langt í að ákveða sjálfar hvenær ákvarðanir þeirra eru farnar að ganga gegn eigendastefnu fyrirtækisins.

„Í þessum efnum, líkt og í barnauppeldi, gildir að best er að setja þá skýra reglu að betra er að koma of oft að biðja um leyfi heldur en of sjaldan.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert