Í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Konan var gestkomandi á heimili mannsins þegar að brotið átti …
Konan var gestkomandi á heimili mannsins þegar að brotið átti sér stað. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt Ómar Örn Reynisson, karlmann á þrítugsaldri, í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun árið 2020. Konan var gestkomandi á heimili hans og sofandi þegar að hann byrjaði að brjóta á henni. 

Maðurinn neitaði sök fyrir dómi og hélt því fram að samfarirnar hefðu farið fram með fullum vilja og samþykki beggja. 

Lét hann vita að hún vildi þetta ekki

Í framburði konunnar kemur fram að maðurinn hafi án hennar samþykkis og meðan hún var sofandi stungið fingri eða fingrum í leggöng hennar. Eftir að hún vaknaði lét hún hann vita að hún vildi þetta ekki og sofnaði aftur. 

Þá hefði hann stungið getnaðarlim sínum í kynfæri hennar og haft við hana samræði án samþykkis og eftir að hún var vöknuð haldið henni fastri á meðan hann hafði við hana samræði uns því lauk með því að ákærði fékk fullnægingu.

Maðurinn var dæmdur í þriggja ára fangelsi og honum gert að greiða konunni tvær milljónir króna með vöxtum, auk sakarkostnaðar sem nam rúmum fjórum milljónum króna.

Kom til hans eftir mikið „suð“

Í framburði konunnar kemur fram að hún hafi búin að vera úti um nóttina og verið að koma heim þegar að maðurinn byrjaði að senda henni skilaboð á Snapchat þar sem hann bað hana um að koma til sín þar sem hann byggi.

Í fyrstu hafi hún ekki verið til í að koma enda væri hún þreytt og að mæta í vinnu daginn eftir. Eftir mikið suð hafi hún gefið eftir en sagt við manninn að hún færi beint að sofa. Hann hafi tekið vel í það.

Klukkan var farin að ganga sjö þegar að hún kom til hans og þau fóru að horfa á þætti og sváfu svo saman.

Í framburði hennar kemur fram að hún hafi þá farið að sofa en hann hafi ekki verið búinn að fá fullnægingu þá. Eftir að hún sofnaði lét maðurinn þó ekki segjast og braut á henni.

Daginn eftir leitaði konan á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota með móður sinni og fór í kjölfarið í tímabundið veikindaleyfi í vinnunni.

Brotið gróflega gegn kynfrelsi

Í dóminum kemur fram að framburður konunnar hafi verið í samræmi við þau gögn sem voru lögð fram í málinu og jafnframt í samræmi við framburð annarra sem hafa komið fyrir dóminn, að frátöldum framburði mannsins.

Sömuleiðis kemur fram að atriði í framburði mannsins þyki veikja trúverðugleika hans, til að mynda skýringar hans á hvers vegna samskipti hans og konunnar hættu skyndilega.

Þá sé hafið yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að með háttsemi sinni hafi maðurinn brotið gróflega gegn kynfrelsi og sjálfsákvörðunarrétti konunnar. Þá var einnig litið til styrks og einbeitts brotavilja mannsins sem birtist í því að hann hélt áfram að brjóta gegn konunni eftir að hún hafði látið hann vita að hún kærði sig ekki um kynlíf og var aftur sofnuð. Að lokum var litið til þess að hann hefði ekki áður gerst sekur um refsiverðan verknað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert