Landvernd hefur kallað eftir því að Landsnet axli ábyrgð á rafmagnsleysinu sem stóð yfir í rúmlega tvær klukkustundir í gær.
„Fyrirtækið fríar sig ábyrgð með því að vísa til þess að hugsanlega hefði ekki farið svona illa ef það hefði fengið að reisa Suðurnesjalínu 2 að eigin vild,“ segir í yfirlýsingu Landverndar.
Bilun í eldingarvara olli rafmagnsleysinu og sagði í tilkynningu frá Landsneti að á næstu dögum yrði settur upp nýr eldingavari.
„Að rafmagn skulu fara af á hæglætisvetrardegi á svæði með tveimur stórum virkjunum bendir til þess að vandinn sé flóknari en Landsnet lætur í veðri vaka.“
Þá er spurt hvort rafmagnsleysið sé enn eitt dæmið um að forgangsröðun, uppbygging og stýring íslenska raforkukerfisins sé gölluð.
„Staðreyndin er a.m.k. sú að á Suðurnesjum hafa Landsnet og HS Orka ekki borið gæfu til að byggja kerfið upp á öruggan hátt, hvorki með tilliti til náttúruvár, samfélags né umhverfis.“
Í yfirlýsingunni segir að það sé óskiljanlegt að virkjanir í Svartsengi og á Reykjanesi geti ekki starfað án tengingar við aðra hluta landskerfisins. Virkjanirnar séu nógu stórar til að mæta eftirspurn.