Óvíst bæði um fjármögnun og rekstur

Ásmundur Einar Daðason, Katrín Jakobsdóttir og Dagur B. Eggertsson á …
Ásmundur Einar Daðason, Katrín Jakobsdóttir og Dagur B. Eggertsson á blaðamannafundi í gær vegna hallarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Eitt er að eiga sér draum um að byggja hér glæsilega þjóðarhöll og ég held að við getum sameinast um það flest, ef ekki öll. En það verður ekki gert fyrr en fjármögnunin liggur fyrir og hvernig á að reka hana og það er best að byrja þar áður en menn fagna eða gera mikið meira,“ segir Óli Björn Kárason þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Áform um nýja þjóðarhöll í Laugardal voru kynnt í gær og þar vakti athygli að enn er ófrágengið með hvaða hætti framkvæmdirnar verða fjármagnaðar. Samkvæmt viljayfirlýsingu sem undirrituð var fyrir kosningarnar í fyrra munu ríkið og Reykjavíkurborg tryggja fjármögnunina, en ekkert er sagt um hlutföllin. Þar sagði þó að kostnaðarskiptingin milli ríkis og borgar um framkvæmdir og rekstur myndi taka mið af nýtingu mannvirkisins og þeim kröfum sem hvor aðili gerði til þess. Engu hefur verið slegið föstu um það, aðeins settar fram ýmsar sviðsmyndir sem farið verði yfir af aðilum ásamt framkvæmdanefnd.

Óli Björn kveðst telja mögulegt að framkvæmdum við byggingu þjóðarhallar ljúki árið 2025. „Auðvitað geta menn gert hluti tiltölulega hratt og vel, en ég held að menn ættu nú að byrja á því að tryggja fjármögnun verkefnisins og leggja fram áætlun um hvernig staðið verði undir rekstri hallarinnar. Þegar það liggur fyrir geta menn tekið endanlega ákvörðun og sett fram skynsamlega tímaáætlun. Þá má kannski taka kampavínið upp,“ segir hann.

Reisa á 19.000 fermetra hús ofan við Laugardalshöllina sem á að rúma 8.600 manns í sæti en á að geta tekið 12.000 gesti á tónleikum og ámóta viðburðum. Kostnaður er áætlaður um 15 milljarðar króna.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert