Tókust á um „tugmilljarða skuldbindingar“

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Hér í þessum sal skiptir þó mestu að meirihluti borgarstjórnar hefur stutt þetta viðskiptaferli með ráðum og dáð. Þau telja að eigendum Ljósleiðarans, Reykvíkingum, komi ekkert við þó forstjórinn skrifi undir samning sem á endanum geti kostað tugmilljarða skuldbindingar sem Reykvíkingar þurfi að greiða ef illa fer.

Borgaryfirvöld telja að upplýsingaréttur eigenda, hljóti að víkja fyrir rétti samningshafa um að halda samningnum leyndum,“ sagði Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á borgarstjórnarfundi í dag þar sem meðal annars var tekist á um málefni Ljósleiðarans ehf.

Umræður um málefni fyrirtækisins, sem er dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur, voru loks leyfðar í dag en á síðustu tveimur fundum borgarstjórnar, í lok desember og byrjun janúar voru umræður um málefni fyrirtækisins ekki leyfðar.

Ljósleiðarinn er fjarskiptafélag sem stofnað er á grunni Gagnaveitu Reykjavíkur, áður Lína.Net. Hlutverk fyrirtækisins er að veita íslenskum heimilum og fyrirtækjum aðgengi að hágæða þjónustu á opnu aðgangsneti.

Kaupir stofnnet Sýnar fyrir þrjá milljarða

Málið snýr að væntanlegri hlutafjáraukningu Ljósleiðarans í kjölfar kaupa þess á stofnneti Sýnar en kaupverðið er þrír milljarðar króna. Samningurinn felur í sér viðbótarskuldsetningu Ljósleiðarans og þar með Samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar. Ljósleiðarinn óskaði eftir því að eigendur staðfestu hlutafjáraukningu félagsins. Borgarráð tók erindið fyrir og skipaði rýnihóp.

Kjartan Magnússon og Marta Guðjónsdóttir, sem og aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðiflokksins gagnrýndu harðlega í máli sínu í dag að borgarfulltrúar væru ekki upplýstir með fullnægjandi hætti um viðskipti Ljósleiðarans og Sýnar en ákvæði í kaupsamingi um viðskiptin kveða á um trúnað um innihald hans milli félagana.

Þannig neitar stjórn Ljósleiðarans að leggja samninginn fram sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks vilja meina að brjóti í bága við ákvæði eigendastefnu Reykjavíkurborgar.

Ljósleiðarinn hefur lagt fram minnisblað frá lögmannsstofu til stuðnings síns málstaðar en í því er fullyrt að hvorugur samningsaðilinn megi brjóta ákvæði um trúnað með því að upplýsa um innihald hans þar sem það brjóti í bága við samkeppnislög.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks bentu í umræðum einnig á að meirihluti stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur hafi, í desember síðastliðinn, samþykkt heimild til þessarar stóraukinnar skuldsetningar án þess að hafa séð samninginn sjálfan. Þá bentu þeir á að borgarráð hafi heimiliað skilmálabreytingu á láni Orkuveitunnar sem gerir Ljósleiðaranum kleift að fara í milljarða lántökur án aðkomu borgarráðs eða borgarstjórnar.

Bentu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks þá á skilgreiningu á meginstarfssvæði Orkuveitu Reykjavíkur í eigendastefnu félagsins sem sé Suðvesturland og að tækifæri annars staðar skildi skoða út frá hlutverki fyrirtækisins, arðsemi og áhættu og skildi staðfest af eigendum áður en stofnað væri til skuldbindinga vegna þeirra. Kaup á stofnneti Sýnar hlyti þannig að vera brot á eigendastefnu félagsins.

Rýnihópurinn einnig í myrkrinu

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs veittu andsvör þess efnis að reynt hafi verið að útvega aðgang að kaupsamingnum en trúnaðarákvæði hans og álit lögmannsstofu á mögulegum brotum á ákvæðum Samkeppnislaga flæki málið. Fram kom í máli þeirra beggja að rýnihópnum væri einmitt ætlað að skoða málið vel vegna þeirra trúnaðarsjónarmiða sem flækjast fyrir í málinu. Galli er þó á gjöf Njarðar. Rýnihópurinn hefur ekki heldur fengið að sjá samninginn.

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks tilkynnti í ræðu sinni í dag að hún hafi sagt sig úr rýnihópnum enda sæi hún ekki tilgang með rýnihópi sem ekki fær aðgang að jafn mikilvægum grundvallargögnum og samningurinn er.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði á fundinum fram ósk fyrir hönd borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um greinargerð um fjárhagsleg áhrif samnings við Sýn á Ljósleiðarann og skuldastöðu félagsins, Orkuveitusamstæðunnar og samstæðu Reykjavíkurborgar. Þá óska Sjálfstæðismenn einnig eftir yfirliti yfir viðskiptasamninga borgarinnar og fyrirtækja hennar síðastliðinn 10 ár og greiðslur samkvæmt þeim sem nema yfir einum milljarði króna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram bókun þar sem komið var inn á umræðubann til að hindra óþægilegar umræður. Þá var í bókuninni bent á að borgarstjóri og formaður borgarráðs vilji ekki ræða þær milljarða fjárskuldbindingar sem samningur Ljósleiðarans við Sýn hefur í för með sér. Spurt var hvers vegna brotið væri gegn eigendastefnum Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur. Spurt var um eðli samningsins og áhrif hans á skuldastöðu Ljósleiðarans, Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar. Þá var spurningu varpað fram um það hvort borgarfyrirtæki ættu að vera í samkeppnisrekstri og í áhættufjárfestingum á landsbyggðinni.

Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins má sjá í heild sinni hér að neðan:

Bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins vegna Ljósleiðara OR

Umræða um málefni Ljósleiðara Orkuveitunnar hefur loks verið leyfð í borgarstjórn eftir að hafa verið bönnuð tvívegis. Slíkt umræðubann er brot á sveitarstjórnarlögum en sýnir hversu langt borgarfulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar ganga til að hindra óþægilegar umræður. Umræðan í dag leiðir í ljós að í því eru fjölmörg álitamál og mikilvægum spurningum ósvarað. Borgarstjóri og formaður borgarráðs vilja sem fyrr ekki ræða þá stefnubreytingu og þær milljarða fjárhagsskuldbindingar, sem fyrirliggjandi viðskiptasamningur hafa í för með sér, heldur reyna að sveipa hana óréttmætum trúnaði.

Af hverju er brotið gegn ákvæði eigendastefnu Reykjavíkurborgar gagnvart B-hluta félögum, um að borgarstjóri skuli leggja mál, sem eru óvenjuleg eða mikilsháttar fyrir borgarráð til samþykktar? Hví er brotið gegn ákvæði eigendastefnu OR um að meginstarfsvæði Orkuveitunnar sé Suðvesturland og að frávik frá því skuli staðfest af eigendum áður en stofnað er til skuldbindinga vegna þeirra? Hvert er eðli samnings, þar sem búnaður er keyptur gegn skuldbindingu um langtímaþjónustukaup seljanda og hvaða trygging er fyrir því að þau viðskipti haldist? Hver eru áhrif samningsins á skuldastöðu Ljósleiðarans, Orkuveitunnar og Reykjavíkurborgar? Eiga borgarfyrirtæki að vera í samkeppnisrekstri og færa út kvíarnar með áhættufjárfestingum á landsbyggðinni? Greinilegt er að borgarstjórnarmeirihlutinn vill ekki efnislega umræðu um þessi álitamál.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert