Jón Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íslenska járnblendifélagsins hf., lést á líknardeildinni á Landakoti sunnudaginn 15. janúar, 88 ára að aldri.
Jón fæddist 29. október 1934 í Reykjavík og var sonur Ingibjargar Pálsdóttur húsmóður og Sigurðar Jónssonar sjómanns.
Jón varð stúdent frá MR 1954 og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1958. Hann fór til framhaldsnáms í opinberri stjórnsýslu við University of Southern California í Los Angeles 1963-1964.
Jón var fulltrúi í atvinnumálaráðuneytinu 1958-1962 og deildarstjóri 1962-1966. Hann var ráðgjafi í fjármálaráðuneytinu 1965-1966, hagsýslustjóri 1966-1967 og ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis 1967-1974 og 1976-1977. Þá var Jón stjórnarmaður Norðurlanda hjá Alþjóðabankanum 1974-1976 og framkvæmdastjóri Íslenska járnblendifélagsins hf. 1977-1997. Hann kom til starfa við Íslenska járnblendifélagið nánast þegar byggingarframkvæmdir við verksmiðjuna hófust og stýrði uppbyggingunni. Auk þessara starfa sat Jón í fjölmörgum nefndum og stjórnum á árunum 1960-1977. Þar á meðal í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og barnakennara, SKÝRR, í samninganefnd ríkisins í launamálum, stjórn Laxeldisstöðvar ríkisins í Kollafirði og Þörungavinnslunnar hf.
Einnig sat Jón í fjölda nefnda vegna endurskoðunar laga og samninga á frumvörpum til laga um ýmis málefni og stofnanir svo sem opinberar framkvæmdir, skattamál og fleira. Þá sat hann í Rannsóknaráði ríkisins 1985-1991 og í framkvæmdastjórn VSÍ 1988-1991.
Jón hafði mikinn áhuga á þjóðmálum og tók mikinn þátt í umræðunni með greinaskrifum á meðan hann hafði heilsu til.
Eftirlifandi eiginkona Jóns er Bergljót Jónatansdóttir, f. 1935. Þau eignuðust þrjú börn, Rósu, matvælafræðing, f. 1958, Sigurð Inga, tölvufræðing og MBA, f. 1959, og Lilju Sigrúnu, lækni, f. 1962.