Biðstöð Strætó við flugvöllinn „óviðunandi“

Malarstígur liggur frá strætóbiðstöðinni að flugvallarsvæðinu.
Malarstígur liggur frá strætóbiðstöðinni að flugvallarsvæðinu. Ljósmynd/Aðsend

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur afgreiddi í dag tillögu Sjálfstæðisflokksins, þess efnis að aðstaða strætisvagnafarþega verði bætt við flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli. Meirihluti ráðsins vísaði tillögunni til skoðunar á umhverfis- og skipulagssviði. Kjartan Magnússon borgarfulltrúi flutti tillöguna fyrst í borgarráði í október en henni hafði verið frestað hingað til.

Sagði í tillögunni að sú aðstaða væri nú óviðunandi. Vel merkt gangbraut verði lögð frá farþegaafgreiðslu flugstöðvarinnar að strætisvagnabiðstöðinni, sem er í um 150 metra fjarlægð frá flustöðinni. Þá verði lýsingu og gangstéttum bætt við að umræddri leið þar sem þörf krefji. 

Var tillögunni vísað til umhverfis- og skipulagssviðs, skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar í vinnu um umferðaröryggisáætlun.

Vonbrigði að tillagan sætti ótímabundinni skoðun

Bókuðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í kjölfarið að vonbrigði væru að fulltrúar Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar skuli ekki samþykkja fyrirliggjandi tillögu um að bæta aðstöðu strætisvagnafarþega við flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli „heldur vísa henni til ótímabundinnar skoðunar í borgarkerfinu“.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, studdi tillöguna og benti á að margir sem noti flugstöðina séu erlendir ferðamenn. Með henni sé verið að gæta hagsmuna þeirra þar sem flugvöllurinn sé ekki á förum á næstu árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert