Hátt í tveggja vikna seinkun á sorphirðu

Tunnur eru víða yfirfullar þar sem enn er verið að …
Tunnur eru víða yfirfullar þar sem enn er verið að vinna upp álag vegna færðarinnar. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Sorphirða endurvinnsluefna hefur þurft að bíða í tæpar tvær vikur í sumum hverfum borgarinnar. Enn er verið að hirða uppsafnað sorp vegna færðarinnar.

Líklegt er að Grafarvogurinn verði verst úti en sorphirðu hefur einnig seinkað í Árbæ, Hlíðum og Vesturbæ. Þetta segir Valur Sigurðsson, rekstarstjóri sorphirðu hjá Reykjavíkurborg.

Um þrjár vikur gætu liðið þar til sorphirða kemst á rétt ról að sögn Vals en dæmi eru um tveggja vikna seinkun á sorphirðu í efri byggðum.

Átta bílar að störfum og færð verið erfið

Átta bílar eru í umferð hjá sorphirðu Reykjavíkur en almennt eru tíu bílar að störfum, að sögn Vals.

„Staðan er nokkurn veginn sú sama og í fyrradag. Það er einn bíll búinn að vera bilaður í svolítinn tíma, sem hefur ekki áhrif nema þegar ástandið er svona. En síðan bilaði annar bíll í vikunni og það setur aðeins högg í þetta hjá okkur. Við erum samt ekki að dragast meira aftur úr,“ segir Valur.

Færð var erfið í síðustu viku að sögn Vals, sem tafði sorphirðufólk töluvert. 

„Við erum að ná að halda okkur á svipuðu róli þessa vikuna og við sjáum í lok vikunnar munum við síðan sjá betur hversu mikið okkur tekst að vinna þetta upp. Hluti af ástæðunni var að færðin var aðeins þyngri í Vesturbæ, miðbæ, Hlíðum. Það var mikill snjór sem var að tefja okkur töluvert. En nú er það komið í betra lag,“ segir Valur.

Byrjað hafi verið í Breiðholti í þessari viku og vel gangi. „Síðasta vika var ekki eins góð og við vonuðumst eftir en við bindum vonir við að ná að vinna þetta upp næstu daga.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka