Hiti gæti farið í tíu stig yfir helgina

Veðurstofa Íslands varar við asahláku, afrennsli vegna úrkomu og snjóbráðnunar, …
Veðurstofa Íslands varar við asahláku, afrennsli vegna úrkomu og snjóbráðnunar, og vexti í ám og lækjum yfir helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekkert lát hefur verið á sögulegu kuldakasti síðastliðna daga en það gæti þó breyst á föstudaginn þegar að fimm til níu stiga hita er spáð. Veðurstofa Íslands varar við asahláku, afrennsli vegna úrkomu og snjóbráðnunar, og vexti í ám og lækjum. Þá er fólk hvatt til að sýna aðgát þar sem ísilagðar ár geta rutt sig.

Frostið fór mest í 23,8 gráður við Sandskeið síðastliðinn sólarhring. Þá mældist víða 15 gráða frost á höfuðborgarsvæðinu í dag en mesti kuldinn var í Víðidalnum þar sem kuldinn fór í 20,4 gráða frost.

Ari Teitsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að það sé útlit fyrir svipaðan kulda á suðvesturhorni landsins á morgun, mögulega verði þó örlítið kaldara í nótt og í fyrramálið. 

Fyrir norðan bætir þó í kuldann á morgun og má búast við fimm til tíu stiga frosti þar.

Gjörbreytt veður á föstudag

Á föstudaginn eru miklar breytingar í vændum en þá tekur að hlýna með lægðinni sem kemur yfir landið, sem stendur yfir í einn og hálfan sólarhring.

Fimm til níu stiga hita er spáð á föstudaginn, og gæti hitinn jafnvel farið í tveggja stiga tölu fyrir norðan og austan yfir helgina. Snjór mun bráðna og rigning falla og varar Veðurstofan við mikilli hálku. 

Strax á sunnudaginn tekur að kólna aftur og fer hiti víða undir frostmark. Þá er snjókomu einnig spáð í öllum landshlutum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert