Sindri Snær Birgisson og Ísidór Nathansson sem ákærðir hafa verið fyrir skipulagningu hryðjuverka og aðilda að skipulagningu neituðu báðir sök varðandi hryðjuverkaliðinn við þingfestinu máls þeirra í dag.
Mikill fjöldi fjölmiðlafólks er samankominn í Héraðsdóm Reykavíkur til að fylgjast með þingfestingunni.
Báðir ákærðu mættu fyrir dóm í dag. Þeir játa þó báðir nokkur brot á vopnalagabrotum, en hafna öðrum.
Ísidór játar sök á brotum við fíkniefnalög með því að hafa haft í fórum sínum fíkniefni og stera.
Sindri Snær Birgisson er ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka og stórfelld brot gegn vopnalöggjöf. Ísidór Natansson er ákærður fyrir hlutdeild í tilraun til hryðjuverka og stórfelld brot gegn vopnalöggjöf. Voru þeir ákærðir fyrir brot á 100. grein a í hegningarlögunum en samkvæmt þeirri grein væri hægt að dæma þá til ævilangs fangelsis, verði þeir fundnir sekir.
100 gr. a hljóðar svo:
„Fyrir hryðjuverk skal refsa með allt að ævilöngu fangelsi hverjum sem fremur eitt eða fleiri af eftirtöldum brotum í þeim tilgangi að valda almenningi verulegum ótta eða þvinga með ólögmætum hætti íslensk eða erlend stjórnvöld eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða í því skyni að veikja eða skaða stjórnskipun eða stjórnmálalegar, efnahagslegar eða þjóðfélagslegar undirstöður ríkis eða alþjóðastofnunar:] 1)
Sömu refsingu skal sá sæta sem í sama tilgangi hótar að fremja þau brot sem talin eru í 1. mgr.]
Mennirnir tveir voru handteknir 21. september og sátu í varðhaldi fram til 13. desember þegar Landsréttur felldi úr gildi gæsluvarðhaldsúrskurð yfir þeim frá því 9. desember. Var varðhaldskrafan byggð á þeirri forsendu að mennirnir væru hættulegir.
Í framhaldinu fór saksóknari fram á varðhald að nýju, byggt á því að sterkur grunur væri um að þeir hefðu framið afbrot sem gætu varðað 10 ára fangelsi og að varðhald væri nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Bæði Héraðsdómur Reykjavíkur og Landsréttur höfnuðu hins vegar þeirri beiðni og eru mennirnir því ekki í haldi í dag.
Í kjölfar þess að mennirnir voru látnir lausir og ákvörðunar Landsréttar hækkaði lögreglan viðbúnaðarstig sitt vegna hryðjuverka úr A í B. Í tilkynningu frá lögreglunni sagði að um tímabundna ákvörðun væri að ræða og að viðbúnaðarstigið yrði metið reglulega. Það er greiningardeild ríkislögreglustjóra sem metur hættustig vegna hryðjuverka. Metur hún hættustigið á þriðja stigi, en það þýðir að deildin meti það sem svo að aukin ógn sé vegna þess að til staðar sé ásetningur og geta og hugsanlega verið að skipuleggja hryðjuverk.