Ótilgreindur hópur á ótilgreindum stað

Sveinn Andri Sveinsson.
Sveinn Andri Sveinsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveinn Andri Sveinsson, verjandi annars sakborninganna í hryðjuverkamálinu svokallaða segir að athugasemdir verjenda í málinu um form ákærunnar snúi að óljósu orðalagi sem tengist hryðjuverkahluta ákærunnar. 

Staðnæmist við orðalag ákærunnar

Þar er einungis talað um skipulag á morði eða stórfelldu líkamstjóni á ótilgreindum hópi á ótilgreindum stað. Þetta telja verjendur mannanna tveggja ekki nægilega skýrt. 

„Ég geri ráð fyrir að þetta sé einnig það sem dómari er að hugsa. Hann útskýrði það ekki en hann sagðist hafa staðnæmst við formhlið málsins. Ég geri ráð fyrir að hann hafi staðnæmst við orðalag ákærunnar,“ sagði Sveinn Andri í samtali við mbl.is að þingfestingu málsins lokinni í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. 

„Það er allt mjög óljóst og loðið.“

Spurður hvort að öðrum kosti verjendur hefðu lagt fram frávísunarkröfu, segir Sveinn Andri ekki hafa verið ákveðinn um það. 

Þingfesting í hryðjuverkamálinu.
Þingfesting í hryðjuverkamálinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Hann ákvað að eiga frumkvæðið að þessu – þetta er praktískt. Ef tilefni er til að vísa málinu frá er betra að gera það núna frekar en eftir viku langa aðalmeðferð og yfirlegu. Þetta er ódýrara fyrir skattborgara,“ segir Sveinn Andri og kveðst fagna vinnubrögðunum.

Óverulegt í stóra samhenginu  

Umbjóðandi Sveins Andra hafnaði sök í ákæruliðum er snúa að skipulagi hryðjuverka en játaði sök í hluta af ákæruliðum er varða brot á vopnalögum. Spurður hvort að ekki sé um að ræða alvarleg brot segir Sveinn Andri þau óveruleg í stóra samhenginu. „Vopnalagabrot eru yfirleitt ekki tekin mjög föstum tökum.“

„Ég veit ekki hvort að þau teljast alvarleg eða ekki en þetta eru brot sem hann játar. Það er dómara að meta hvort að þetta falli undir alvarleg vopnalagabrot eða ekki. En eins og ég segi, viðurlög við vopnalagabrotum eru mjög léttvæg við hliðina á tilraunum til hryðjuverka.“

Ákæruliðirnir sem umbjóðandi Sveins Andra hefur játað snúa að framleiðslu vopna með ólöglegum hætti og vörslu án leyfis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert