Segir ekki rétt farið með gröfumálið

Ráða má af myndskeiði að gröfumaður hafi sturtað snjó yfir …
Ráða má af myndskeiði að gröfumaður hafi sturtað snjó yfir mann sem stóð við gröfuna. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Atburðarás þar sem gröfumaður sturtaði snjó yfir strætóbílstjóra er ekki eins og henni er lýst í fjölmiðlum að sögn mannauðsstjóra Óskataks, Ingibjargar Marteinsdóttur. Atvikið náðist á myndband og sást gröfumaður þar sturta snjó yfir strætóbílstjóra.

Maðurinn er snúinn aftur til starfa hjá verktakafyrirtækinu Óskataki en þó á öðrum vettvangi en áður.

„Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfum fengið er atburðarásin ekki alveg eins og henni er lýst í fjölmiðlum en málið er komið í hendur á aðilum sem vinna slík mál,“ segir Ingibjörg í samtali við mbl.is. Maðurinn sagðist hafa fengið gusu af snjó yfir sig tvisvar og borið skaða af.

Tjáir sig ekki um atburðarásina

Gat hún ekki svarað því að hvaða leyti atburðarásin hafi verið önnur en fram hefur komið. Það sé í höndum annarra aðila að skoða málið og að atburðarásin muni koma í ljós að því búnu.

Ekki fengust upplýsingar um hvar málið væri til skoðunar en fram hefur komið að strætóbílstjórinn hygðist kæra gröfumanninn fyrir tilraun til manndráps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert