Sigríður Pálína Suðurnesjamaður ársins

Sigríður Pálína Arnardóttir er Suðurnesjamaður ársins.
Sigríður Pálína Arnardóttir er Suðurnesjamaður ársins. Ljósmynd/Reykjanesapótek

Víkurfréttir hafa valið Sigríði Pálínu Arnardóttur, lyfjafræðing og eiganda Reykjanesapóteks, Suðurnesjamann ársins 2022, að því er fram kemur í fréttatilkynningu miðilsins.

Sigríður Pálína, sem gjarnan er kölluð Sigga Palla, hefur rekið Reykjanesapótek frá árinu 2017 og getið sér gott orð á meðal Suðurnesjafólks fyrir einstaka þjónustulund. Hún opnar apótekið sitt á öllum tímum sólarhringsins fyrir viðskiptavinum í bráðum vanda. Þá fékk Sigríður styrk frá heilbrigðisráðuneytinu á síðasta ári til þess að bjóða upp á lyfjafræðilega ráðgjöf í apótekinu og er verkefnið nefnt lyfjastoð.

Tilraunaverkefnið lyfjastoð beinist í fyrstu atrennu einungis að blóðþrýstingslyfjum, blóðþynningar- eða segavarnarlyfjum og blóðfitulækkandi lyfjum en Sigga Palla segir að þau myndu vilja veita ráðgjöf með öllum áhættulyfjum.

Víkurfréttir hafa staðið fyrir kjöri á Suðurnesjamanni ársins í rúma þrjá áratugi en fyrstur til að hljóta nafnbótina var Dagbjartur Einarsson, útgerðarmaður í Grindavík, árið 1990. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka