Stór hluti byggingarmagns fellur ekki undir tryggingavernd

Raki og mygla geta verið til vandræða í híbýlum fólks.
Raki og mygla geta verið til vandræða í híbýlum fólks. mbl.is/Golli

Stór hluti byggingarmagnsins á Íslandi myndi ekki falla undir tryggingavernd vegna byggingargalla ef litið er til núverandi tryggingakerfis fasteigna á Íslandi. Ástæða þess er sú að um flestar eignir gildir að meira en tíu ár eru liðin frá lokaúttekt eða eigendaskiptum og taka venjubundnar fasteignatryggingar yfirleitt ekki á byggingargöllum.

Þetta kemur fram í skýrslu innviðaráðherra þar sem settar eru fram tillögur til aðgerða og úrbóta til þess að bæta réttarvernd þeirra sem verða fyrir raka- og mygluskaða í byggingum. Þar er lagt til að framkvæmd verði rannsókn á stöðu trygginga fasteigna á Íslandi þar sem fram kemur hve mikill hluti íbúðarhúsnæðis hafi í gildi einhverskonar tryggingar gegn byggingargöllum, sér í lagi göllum af völdum raka og myglu. 

Margvíslegar umbætur lagðar til

Umbæturnar sem lagðar eru til eru helst í gegnum ýmis möguleg tryggingarúrræði, umbætur á regluverki byggingariðnaðarins, aukningu í notkun miðlægra rafrænna gátta og með fræðslu, rannsóknum og útgáfu upplýsinga.

Ítarlegri lista um tillögur að aðgerðum, úrræðum og verkefnum sem stuðlað geta að bættum gæðum í byggingariðnaði og bættri réttarvernd neytenda vegna byggingargalla, þar með talinn raka- og mygluvanda í húsnæði má finna í skýrslunni. Listinn inniheldur fyrst og fremst verkefni sem eru sértæk og hafa upphaf og endi, en einnig verkefni sem eru viðvarandi og í sífelldri þróun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert