Karlmaður hefur verið ákærður af lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra fyrir að hafa haft mikið magn grófs barnaníðsefnis í síma sínum þegar hann var handtekinn fyrir umferðarlagabrot. Var síðar leitað á dvalarstað mannsins og fannst þá einnig mikið magn slíks efnis í síma og á iPad. Þá er hann einnig ákærður fyrir að hafa dreift klámfengnum teikningum af börnum til ótilgreindra aðila.
Er í ákærunni útlistað um hvers konar myndir sé að ræða, en tekið er fram að myndefnið sýni allt frá ungabörnum upp í börn að táningaaldri í kynferðislegum athöfnum.
Málið kom upp um mitt ár 2019 og var þingfest á síðasta ári. Fór fyrirtaka fram í byrjun mánaðarins, en það er Vísir sem greinir upphaflega frá málinu.
Samtals fundust í fórum mannsins í rafmagnstækjunum þremur og á Telegram reikningi hans yfir 21 þúsund ljósmyndir, teiknimyndir eða hreyfiteiknimyndir sem sýndu barnaníðsefni auk 111 myndskeiða.
Mest var magnið á Telegram reikningi mannsins, en þar fundust tæplega 21 þúsund teiknimyndir og hreyfiteiknimyndir auk um hundrað ljósmynda. Nokkur hundruð ljósmyndir og myndskeið fundust hins vegar á tækjunum sjálfum.
Í ákærunni er flokkað niður hvers konar efni var á myndunum, en af því má sjá að um mjög gróft efni er að ræða. Eru þar meðal annars ljósmyndir af nöktum börnum og ungabörnum að glenna sig, en einnig ljósmyndir sem sýna karlmenn brjóta á börnunum með því að láta börnin veita sér munnmök eða þar sem limur eða fingur eru settir í leggöng þeirra eða endaþarm. Einnig eru myndir af stúlkubörnum sem eru bundnar á höndum og fótum og með klút fyrir augum. Þá fannst mynd á Telegram reikningnum sem sýndi karlmann nauðga mjög ungu barni.
Tekið er fram að myndskeiðin sem fundust hafi verið af mjög ungum stúlkubörnum og fjórum drengjum. Eins og með ljósmyndirnar sýndu þær allt frá nektarmyndum upp í kynferðislegar athafnir með karlmönnum og konum.
Maðurinn er ákærður fyrir brot á 1. og 2. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga. Geta brot mannsins því varðað allt að sex ára fangelsi.
210. gr. a. almennra hegningarlaga hljóðar svo:
[Hver sem framleiðir, flytur inn, aflar sér eða öðrum, dreifir eða hefur í vörslum sínum myndefni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt skal sæta sektum eða fangelsi allt að 6 árum. Við mat á grófleika verknaðar skal sérstaklega líta til umfangs brots, hvort það sé framið á kerfisbundinn eða skipulagðan hátt, hvort lífi barns hafi verið stofnað í hættu, hvort barn hafi verið beitt grófu ofbeldi eða hvort barn hafi beðið líkams- eða heilsutjón.
Hver sem skoðar myndefni á netinu eða með annarri upplýsinga- eða fjarskiptatækni sem sýnir kynferðislega misnotkun á barni eða sýnir barn á kynferðislegan hátt skal sæta sömu refsingu og greinir í 1. mgr