30 stiga hitamunur á milli daga

Teitur segir að síðdegis á morgun gæti orðið 7 stiga …
Teitur segir að síðdegis á morgun gæti orðið 7 stiga hiti í Víðidalnum og rigning. í dag mældist þar -22,4 gráður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miklar hitabreytingar verða á landinu frá því í dag og fram á sunnudag en á morgun er hætta á ausandi rigningu á skíðasvæðum, flughálku, staðbundnum flóðum nálægt ám og vatnstjóni ef ekki er hugað að niðurföllum.

„Kaldasta sem hefur mælst í dag er -22,4 gráður í Víðidal í Reykjavík,“ segir Teitur Arason, veðurfræðingur á vakt, í samtali við mbl.is.

„Svo reiknum við með að mælist seint á morgun í kringum 10 stig í hnjúkaþey á Norður- eða Austurlandi. Frá kaldasta hita í dag til hlýjasta hita á morgun er kannski svona 30 stiga sveifla.“

Teitur segir að síðdegis á morgun gæti orðið 7 stiga hiti í Víðidalnum og rigning. Þannig það er 29 stiga sveifla þar.

Hiti á skíðasvæðum og rigning fyrir sunnan

Teitur segir loftmassann sem komi á morgun vera það hlýjan að hiti muni fara upp fyrir frostmark til fjalla, til að mynda á skíðasvæðum eins og í Hlíðarfjalli og í Bláfjöllum – þar sem er líklegt að muni rigna.

„En það verður lítil rigning fyrir norðan, einhver smávegis þó, en það verður hlýtt þar. Það fer í plús-gráðurnar þarna uppi í Hlíðarfjalli, það mun væntanlega þétta snjóinn þar. Að móti kemur að það mun væntanlega rigna í hann í Bláfjöllum,“ segir Teitur.

„Ég hugsa að það sé of hvasst í Bláfjöllum á morgun til að hafa opið og ausandi rigning. Ég myndi nú sjálfur ekki fara á skíði á morgun.“

Flughálka og staðbundin flóð

Teitur segir að í hlákunni á morgun geti klaki orðið flughált og fólk þurfi að passa sig að detta ekki og slasa sig.

Hann segir einnig að fólk þurfi að passa sig nálægt ám sem hafa verið í klakaböndum. Ísstíflaðar ár geti valdið staðbundnum flóðum.

„Það getur verið að sums staðar bresti þessar stíflur á morgun og valdi staðbundnum flóðum. Það er ekki alveg nákvæmlega vitað hvernig það gerist en það er eitt af því sem fólk ætti að vita af og sýna aðgæslu við ár sem eru í klakaböndum,“ segir Teitur.

„Þetta eru mikil umskipti frá þessum kulda yfir í þennan hita. Síðan kólnar aftur á laugardaginn, þetta er svona einn og hálfur sólahringur af hlýindum. Á sunnudaginn er útlit fyrir dimm él á vesturhelmingi landsins og komið vægt frost aftur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert