Fyrirhuguð fjölgun íbúa á Hlíðarenda mun styrkja verslun og þjónustu á svæðinu. Því er ótímabært að fella dóm yfir möguleikum svæðisins til að laða til sín verslun og þjónustu. Þetta segir Óli Örn Eiríksson, teymisstjóri atvinnu- og borgarþróunar hjá Reykjavíkurborg, og vísar til skipulagðra uppbyggingarsvæða við Hlíðarenda.
„Raunar má segja að það sé umfram væntingar hversu mörg rými eru þegar komin í notkun þrátt fyrir að svæðið sé enn þá í miklum uppbyggingarham með tilheyrandi raski,“ segir Óli Örn.
Tilefnið eru þau ummæli Helga Áss Grétarssonar, varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu í fyrradag, að heimila þurfi fjölbreyttari notkun atvinnurýma á jarðhæðum við Hlíðarenda og á öðrum þéttingarreitum í borginni. Til dæmis vitni fjöldi auðra rýma á Hlíðarenda um að núverandi áhersla á verslun og þjónustu hafi ekki borið tilætlaðan árangur.
Með því vísaði Helgi Áss til atvinnurýma á jarðhæðum reita B-F við Hlíðarenda en þau rými eru einkum við Hlíðarfót, gegnt Loftleiðum, og við Arnarhlíð, sem tekur við af Nauthólsvegi. Nokkur fyrirtæki hafa hafið þar starfsemi.
Óli Örn segir aðspurður að við skipulagningu þessara atvinnurýma sé ekki síst horft til þess að borgarlína eigi að liggja um Snorrabraut og svo áfram inn í Vatnsmýrina um Arnarhlíð og þaðan á Kársnesið. Með því breytist Arnarhlíðin úr því að vera fáfarin íbúðagata í þjóðbraut. Með þetta í huga séu nokkrar götur á Hlíðarenda skipulagðar sem borgargötur.
Þá beri að horfa til þess að á næstu skipulagsreitum séu ekki gerðar sömu kröfur um hlutfall atvinnurýma og gert var á reitum B-F (sjá graf). Jafnframt sé uppbyggingu við Hlíðarenda hvergi nærri lokið en fullbyggt muni hverfið rúma fimm þúsund íbúa, eða um þrefalt fleiri en nú.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu.