Boða breytingar eftir dauðsfall á geðdeild

Spítalinn harma andlát sjúklingsins og vottar aðstandendum samúð sína.
Spítalinn harma andlát sjúklingsins og vottar aðstandendum samúð sína. mbl.is/Hjörtur

Í kjölfar dauðsfalls á geðdeild Landspítalans í ágúst árið 2021 hafa ýmsir annmarkar á þjónustunni orðið ljósir. Á það meðal annars við um mönnun innan geðþjónustunnar og þáttum sem snúa að þverfaglegri samvinnu innan spítalans í þjónustu við einstaklinga með geðsjúkdóma, að því er fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu forstjóra á vef spítalans.

Embætti héraðssaksóknara ákærði hjúkrunarfræðing á dögunum fyrir manndráp í opinberu starfi. Hjúkrunarfræðingnum er gert að hafa svipt konu á sextugsaldri lífi með því að hafa þvingað ofan í hana næringardrykk sem hún svo kafnaði á. 

Spítalinn harmar andlát sjúklingsins og vottar aðstandendum samúð sína. 

Fór strax í umbætur

Spítalinn segir í tilkynningu sem birtist fyrir skömmu að strax eftir atvikið hafi verið ráðist í umbætur inn geðþjónustunnar. Heilbrigðismenntuðu starfsfólki á vöktum hafi verið fjölgað, innra skipulagi þjónustunnar breytt og stoðþjónusta við deildir aukin.

„Með markvissum umbótum er eftir fremsta megni reynt að tryggja að sá lærdómur sem draga má af þessu hörmulega atviki leiði til aukins öryggis fyrir sjúklinga og starfsfólk okkar með skýrara verklagi, betri starfsaðstæðum og aukinni þjálfun starfsfólks,” segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að það sé mat spítalans að þær umbætur sem hafa átt sér stað á starfseminni séu til þess fallnar að draga verulega úr hættu á alvarlegum atvikum og auka öryggi sjúklinga.

Lesa má tilkynningu Landspítalans í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert