Ekki ætti að flæða upp úr holræsum

Jón Trausti bendir á að mikilvægt sé að hreinsa úr …
Jón Trausti bendir á að mikilvægt sé að hreinsa úr þakrennum, af húsþökum og frá niðurföllum til þess að vatnið valdi ekki tjóni þegar það losnar úr klakaböndum. mbl.is/Árni Sæberg

Jón Trausti Kárason, forstöðumaður vatns- og fráveitu hjá Veitum, segir fólk ekki þurfa að hafa áhyggjur af því að skólp komi upp um niðurföll en mikill vatnselgur getur myndast vegna asahláku á morgun. Hann segir það geta gerst í einhverjum afbrigðilegum aðstæðum og tengist það þá frekar staðsetningu í landi og lagnakerfi húsanna en fráveitukerfi borgarinnar.

Hann hvetur fólk til þess að huga að heimilum og nærumhverfi sínu til þess að tryggja að vatnið valdi ekki tjóni þegar það losnar úr klakaböndum.

„Það er mikilvægast að fólk hugi að heimilum sínum, húsþökum, niðurföllum og þakrennum áður en þetta fer að losna úr klakaböndum. Ég tala nú ekki um ef fólk hefur lent í tjóni tengdum svona atburðum áður að það verji sig eftir fremsta megni,“ segir Jón Trausti.

Jón Trausti Kára­son, for­stöðumaður vatns- og frá­veitu hjá Veit­um,
Jón Trausti Kára­son, for­stöðumaður vatns- og frá­veitu hjá Veit­um, Ljósmynd/Gunnhildur Hansdóttir

Ofanvatnslausnir heillavænleg lausn

Frárennsli kerfið er hannað á þann veg að þegar mikið álag er opnast leið fyrir vatnið út í sjó og á því ekki að koma til þess að það flæði upp úr niðurföllum hjá fólki vegna álags. Hann segir að af tvennu illu sé það skárra að hleypa vatninu út í sjó en að það flæði upp úr holræsum hjá fólki en þó sé til önnur umhverfisvænni lausn.

„Það að vatn sem rennur ofanjarðar og skólp frá heimilum eigi samleið í lagnakerfunum er eitthvað sem við höfum vakið athygli á að sé ekki endilega ákjósanlegasti kosturinn. Til eru svokallaðar blágrænar ofanvatnslausnir sem eru bæði náttúrulegri og heillavænlegri. Sú lausn byggir á því að vatnið fái tækifæri til þess að seytla niður í jörðina sem minnkar bæði álagið á rörin og er umhverfisvænni og betri leið fyrir vatn að flæða,“ segir Jón Trausti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert