Golf heilsársíþrótt með tilkomu herma

Ragnhildur Sigurðardóttir kennir á hermanna.
Ragnhildur Sigurðardóttir kennir á hermanna. mbl.is/Óttar

„Það gerist í byrjun árs, í golfi eins og öðrum íþróttum, að fólk fer að huga að hreyfingu þrátt fyrir frost og kulda úti,“ segir Ragnhildur Sigurðardóttir, golfkennari og margfaldur Íslandsmeistari í golfi, um stóraukna aðsókn í golfherma hér á landi. Ragnhildur hefur um árabil kennt golf, bæði hérlendis og erlendis, og kennir nú í Golfhöllinni á Granda. „Golfhermarnir hafa undanfarin ár verið að ryðja sér til rúms. Í Golfhöllinni eru 15 golfhermar og öll aðstaða framúrskarandi til að taka á móti áhugasömum kylfingum.“

mbl.is/Óttar

Ragnhildur hefur lagt mikið upp úr því að búa til kennsluefni fyrir hermana. „Það er draumur minn að hinn almenna kylfing langi til og hann geti, eins og afreks- og atvinnumennirnir okkar, stundað golfæfingar allt árið.“

Hún segir að það geti verið erfitt að fá hinn almenna kylfing til að æfa sig. „Mestum árangri ná þeir sem nenna að æfa sig – þá fyrst sjáum við breytingar. Með tilkomu golfhermanna hefur opnast algjör undraveröld.

mbl.is/Óttar

Mín reynsla er sú að þegar fólk lærir að nota þau tæki og tól sem hermarnir bjóða upp á við æfingar, þá verður ekki aftur snúið og gleðin tekur völdin. Að æfa sig inni á stuttermabolnum er auðvitað allt annað en að æfa sig dúðaður úti í frosti og kulda. Á tjaldinu blasir töfraveröldin við og mjög auðvelt er að lifa sig inn í ímyndaðar aðstæður og gleyma öllu öðru á meðan.

Ég fann það þegar ég byrjaði að kenna í hermunum fyrir þremur árum að það vissi nánast enginn sem kom í kennslu hvernig æfingakerfin virkuðu. Þá áttaði ég mig á því að fólk þyrfti námsefni. Ég stofnaði hóp á Facebook um miðjan nóvember með kennsluefni í notkun Trackman við æfingar.“

Fimmtán Trackman hermar eru í golfhöllinni.
Fimmtán Trackman hermar eru í golfhöllinni. mbl.is/Óttar

Ragnhildur hvetur forvitna til að kíkja á hópinn Golfhermakynning – Trackman Golfhöllin Granda. Hún segir að stillingar séu orðnar mun notendavænni. „Í byrjun var þetta svolítið eins og að vera kominn í flugstjórnarklefa. Það hélt örugglega mörgum frá.

Kylfingar hafa ansi margir spilað í golfhermum en þeir voru teljandi á fingrum annarrar handar sem kunnu að æfa sig í hermi – það er að breytast og ef fram heldur sem horfir verður golf heilsárssport hjá hinum almenna kylfingi áður en langt um líður.“

Glæsilega setustofu og bar er að finna í Golfhöllinni.
Glæsilega setustofu og bar er að finna í Golfhöllinni. mbl.is/Óttar
Nóg pláss.
Nóg pláss. mbl.is/Óttar
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert