Landsvirkjun hefur þurft að takmarka afhendingu raforku undanfarna daga til fiskimjölsverksmjðja og gagnavera. Afhending Landsvirkjunar er fyrst og fremst takmörkuð að degi til en lítilsháttar takmörkun er á nóttunni, samkvæmt Ragnhildi Sverrisdóttur, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar.
„Allt er keyrt í botn en mikil kuldatíð, sem dregur úr rennsli inn í vatnsaflstöðvar, hefur sín áhrif, bæði hjá Landsvirkjun og öðrum framleiðendum.
Almennir notendur nota meira rafmagn í svo miklum kulda og í þessari stöðu er ekki hægt að afhenda að fullu raforku til þeirra sem hafa samið um skerðanlega orku að hluta eða fullu og fengið betri kjör fyrir vikið.“
Stórnotendur geta í gegnum heildsölusamninga samið um kaup á skerðanlegu rafmagni þar sem Landsvirkjun getur fyrirvaralítið hætt afhendingu, til dæmis vegna bilana í virkjunum eða vegna slæmrar vatnsstöðu. Komi til skerðingar skuldbinda notendur sig til að nota aðra orkugjafa eða hætta raforkunotkun.
Samkvæmt þróun heildarverðs heildsölusamninga hjá Landsvirkjun greiddu stórnotendur að meðaltali 2,7 kr. á hverja kílóvattsstund fyrir skerðanlega orku en um 5,3 kr. á hverja kólóvattsstund
Landsvirkjun greip til skerðinga á skerðanlegri orku í desember árið 2021 en þá hafði lækkað mikið í lónum og geta rafflutningskerfisins var fullnýtt svo það réð ekki við alla þá orku sem hefði verið hægt að flytja milli landshluta. Þá var afhending skerðanlegrar orku einnig skert til álvera en ekki hefur þurft að grípa til þess nú.
„Ekki er hægt með óyggjandi hætti að segja til um hversu lengi skerðingar munu standa yfir en staðan er metin frá degi til dags.“
Ragnhildur segir kerfið svo gott sem uppselt og að vinnsla þess hafi farið um og yfir 1.900 megavött á daginn þrátt fyrir takmarkanir, sem sé nálægt sögulegum hæðum.
Staða rafflutningskerfisins hefur lítið breyst í dag. Þá sagði Ragnhildur að bilun hafi komið upp í vél í Búrfelli 7. janúar síðastliðinn. Hún sagði unnið að viðgerð sem áætlað sé að ljúki í lok mars. Ragnhildur sagði bilunina þó ekki hafa mikil áhrif á stöðuna í dag.