SÁÁ hreinsað af ásökunum Sjúkratrygginga

Héraðssaksóknari hefur fellt niður rannsókn á meintu misferli í starfsemi …
Héraðssaksóknari hefur fellt niður rannsókn á meintu misferli í starfsemi SÁÁ. Engin kæra kom vegna þeirrar niðurstöðu innan kærufrests og er því um endanlega niðurstöðu að ræða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsókn embættis héraðssaksóknara á starfsháttum SÁÁ hefur verið felld niður. Þá hefur ríkissaksóknara ekki borist kæra á þeirri niðurstöðu, en kærufrestur er runninn út.

Málið má rekja til þess að forstjóri Sjúkratrygginga sendi héraðssaksóknara mál frá eftirlitsdeild Sjúkratrygginga en það varðaði m.a. þúsundir reikninga sem ráðgjafar SÁÁ sendu til Sjúkratrygginga og eftirlitsdeildin taldi vera tilhæfulausa. Einnig voru gerðar alvarlegar athugasemdir við meðferð á sjúkraskrám.

Formaður SÁÁ segir um miklar gleðifréttir að ræða enda hafi kæran hangið yfir samtökunum og haft gífurleg áhrif á starfsfólk sem lá undir þessum ámælum Sjúkratrygginga.

Málið fallið niður að fullu

Upphaflega var greint frá málinu í janúar í fyrra, en í umfjöllun Stundarinnar kom fram að rannsókn málsins hefði staðið frá því í febrúar árið 2020. Kom í umfjölluninni fram að eftirlitsdeildin teldi ráðgjafa SÁÁ hafa hringt í skjólstæðinga óumbeðið og að viðtöl hafi ekki verið bókuð fyrirfram. Einnig hafi verið rukkað fyrir klukkustunda löng viðtöl þegar gögn sýni að símtölin hafi verið nokkurra mínútna löng.

Í svari Ólafs Haukssonar héraðssaksóknarar staðfestir hann að rannsókn málsins hafi verið hætt og ákvörðun um það hafi legið fyrir 2. desember. Jafnframt staðfestir hann að kærufrestur á ákvörðuninni sé einn mánuður.

Sigríður Friðjónsdóttir ríkissaksóknari staðfesti jafnframt í svari til mbl.is að embættinu hafi ekki borist kæra vegna málsins.

„Þetta var góð jólagjöf“

Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, segir í samtali við mbl.is fréttirnar um niðurfellinguna mjög ánægjulegar. „Þetta þýðir að eftir allt það havarí sem fór af stað í byrjun 2021 er ekkert athugavert er við það hvernig við unnum og vinnum. Við unnum samkvæmt öllum reglum sem við áttum að vinna,“ segir Anna og bætir við: „Þetta var góð jólagjöf.“

Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, í höfuðstöðvum SÁÁ í Efstaleiti.
Anna Hildur Guðmundsdóttir, formaður SÁÁ, í höfuðstöðvum SÁÁ í Efstaleiti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hún segir að málið hafi upphaflega komið eins og þruma úr heiðskýru lofti fyrir samtökin og að öllum hafi verið mjög brugðið. Málið hafi ekki beint haft áhrif á starfsemina innanhúss, meðferð sé áfram veitt o.s.frv.. Hins vegar hafi málið haft gífurleg áhrif fyrir starfsfólkið að liggja undir svona ámælum. „Það er vont að sitja undir því að maður hafi ekki gert rétta hluti þegar maður var að gera rétta hluti,“ segir hún.

Vont ef þjóðin teldi félagið vera í einhverju misferli

Anna tekur fram að málið sé einnig sérstaklega vont fyrir samtökin út á við. „Við reiðum okkur á stuðning þjóðarinnar og það var vont að þjóðin myndi halda að við værum í einhverju misferli.“

Spurð hvort það verði einhverjar aðgerðir af hálfu SÁÁ í kjölfar þessarar niðurstöðu, þá mögulega gegn Sjúkratryggingum, segir Anna að framkvæmdastjórnin hafi ekki enn fundað síðan niðurstaðan lá fyrir í síðustu viku. Hún muni hittast 2. febrúar og segir Anna líklegt að málið verði rætt þá. Segir hún alveg eiga eftir að ákveða hvort eitthvað verði aðhafst í framhaldinu, „en það er ekki ákvörðun sem ég tek ein.“

Sagði upp stuttu eftir ákvörðun héraðssaksóknara

Forstjóri Sjúkratrygginga þegar málið var sent áfram var María Heimisdóttir, en hún upplýsti um starfslok sín 5. desember, eða þremur dögum eftir að ákvörðun héraðssaksóknara lá fyrir. María gaf þær skýringar á uppsögn sinni að hún gæti ekki borið ábyrgð á rekstri Sjúkratrygginga vegna vanfjármögnunar stofnunarinnar. Hafði Morgunblaðið einnig haft af því veður áður að María hefði sagt upp og sent henni ítrekaðar fyrirspurnir um staðfestingu á því sem hún brást ekki við.

María Heimisdóttir fyrrverandi forstjóri Sjúkratrygginga íslands.
María Heimisdóttir fyrrverandi forstjóri Sjúkratrygginga íslands. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert