Segir sjúklinga hafa látist af náttúrulegum orsökum

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. mbl.is/Helgi Bjarnason

Skúli Tómas Gunnlaugsson, fyrrverandi yfirlæknir á sjúkrasviði Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, segir að niðurstaða dómkvaddra matsmanna sé að sjúklingarnir, sem hann er sakaður um að hafa sett í tilefnislausar lífslokameðferðir, hafi látist af náttúrulegum orsökum. 

Skúli greinir frá þessu í færslu á Facebook og útskýrir þar að hann hafi ekki getað tjáð sig um málið fyrr vegna þagnarskyldu. Um er að ræða andlát sex sjúklinga hjá HSS en embætti landlæknis hóf rannsókn vegna þeirra í nóvember árið 2019. 

Um langt skeið hef ég ranglega verið borinn afar þungum sökum um tilefnislausar lífslokameðferðir meðan ég starfaði á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Lögum samkvæmt hef ég ekki getað borið hönd fyrir höfuð mér vegna þagnarskyldu. Umfjöllunin hefur því verið algjörlega einhliða, afar villandi og hreinlega röng. Nú þegar rannsókn lögreglu er á lokastigi, get ég þó upplýst að niðurstaða dómkvaddra matsmanna í málunum er að sjúklingarnir hafi allir látist af náttúrulegum orsökum,“ segir Skúli meðal annars og fagnar því mjög að rannsókn lögreglu sé að ljúka og það hilli undir að niðurstöðurnar verði opinberar. 

Skúli segir jafnframt að málið sé miklu flóknara en haldið hafi verið fram opinberlega. 

Við erum þrjú sem vorum til rannsóknar. Við höfum þurft að heyja okkar baráttu í kyrrþey vegna þagnarskyldu og þurft að sitja undir ótrúlegustu ásökunum á opinberum vettvangi. Sannleikurinn hefur aldrei vafist fyrir öllum þeim sem komu að umönnun sjúklinganna frá upphafi og rannsókn lögreglu og dómkvaddra matsmanna staðfestir það sem ljóst hefur verið alla tíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert