Óveðrið sem spáð er næstu daga er að hefjast, tekið hefur að rigna yfir Keflavík en þar er hitastig komið yfir frostmarki.
Búast má við því í öðrum landshlutum að veðrið hefjist með hreti og snjókomu en fram undir morgun hækkar hitastig og ráðgert er að það rigni á gjörvöllu landinu.
Þetta segir Marcel de Vries, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. Marcel segir að versta veðrið verði vestan og sunnan til á landinu, en einnig verði hvasst á Norðausturlandi.
„Síðan byrjar smám saman að draga úr verðinu þegar það líður á mánudaginn,“ segir hann.
Í fyrramálið verður hiti yfir frostmarki í flestum landshlutum og hiti gæti síðdegis á morgun farið upp í allt að tíu stig á Suðurlandi og Norðausturlandi. Almennt er spáð fimm til tíu stiga hita á morgun.
Marcel segir það ekki í skoðun að hækka viðbúnaðarstig Veðurstofunnar í appelsínugult.