Vitnaleiðslum yfir sakborningum lokið

Sakborningarnir huldu andlit sitt er málið var þingfest í morgun.
Sakborningarnir huldu andlit sitt er málið var þingfest í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sakborningarnir fjórir í stóra kókaínmálinu svokallaða báru vitnisburð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Ýmislegt kom þar fram varðandi málið, en fjölmiðlum er óheimilt að greina frá skýrslutökunum fyrr en þeim er öllum lokið í málinu.

Dómari vitnaði í því samhengi í síðustu málsgrein 10 gr. 1. þáttar laga um meðferð sakamála, þar sem segir:

Nú telur dómari að nægilegt sé til þess að tryggja þá hagsmuni sem búa að baki 1. mgr. að leggja bann við opinberri frásögn af þinghaldi skv. 2. mgr. 11. gr. og skal hann þá grípa til þess úrræðis í stað þess að loka þinghaldi.

Sakborningarnir fjórir eru þeir Páll Jónsson, Daði Björnsson, Jóhannes Páll Durr og Birgir Halldórsson og eru þeir á aldrinum 28 ára til 68 ára.

Páll Jónsson, Daði Björnsson og Jóhannes Páll Durr.
Páll Jónsson, Daði Björnsson og Jóhannes Páll Durr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Menn­irn­ir eru all­ir ákærðir fyr­ir tilraun til stórfellds fíkniefnalagabrots.

Þeir eru sakaðir um, ásamt óþekktum aðila, að hafa ætlað að flytja inn 99,25 kíló af kókaíni hingað til lands frá Brasilíu með viðkomu í Hollandi, þar sem fíkniefnin voru haldlögð af yfirvöldum. Efnin voru falin í sjö trjádrumbum.

Þá eru mennirnir allir ákærðir fyrir að hafa haft um­tals­verðar óút­skýrðar tekj­ur sem talið er að þeir hafi aflað sem ávinn­ings af refsi­verðum brot­um og eftir atvikum með öðrum ólög­mæt­um eða refsi­verðum hætti. Eru upp­hæðirn­ar frá 13 upp í 17 millj­ón­ir á hvern ein­stak­ling.

Þinghald hefst aftur á mánudag

Héraðssaksóknari óskaði eftir því upphaflega að sak­born­ing­arn­ir vikju úr dómsal á meðan hver og einn gæfi skýrslu en dómurinn hafnaði þeirri kröfu. Voru þeir því allir fjórir viðstaddir þinghaldið í dag sem stóð til klukkan rúmlega þrjú.

Skýrslatökur yfir öðrum vitnum hefjast klukkan 9:30 á mánudag. Þá er enn beðið eftir niður­stöðu dómskvadds mats­manns vegna frek­ari grein­ing­ar á kókaín­inu sem menn­irn­ir eru ákærðir fyr­ir að hafa smyglað, þar á meðal á styrk­leik­an­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert