Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu bregst nú við leka í Fossvogsskóla.
Að sögn vakthafandi varðstjóra var dælubíll sendur á vettvang ásamt þjónustubílum sem útbúnir eru auka dælum.
Flöturinn sem er á floti er um tvöhundruð fermetrar og vatnið kemur úr loftinu. Enn sem komið er liggur ekki fyrir hvort að verulegar skemmdir hafi orðið.
Fram kemur í tölvupósti frá skólastjóra til foreldra að mikill leki sé í kennslustofum á vesturhlið Vesturlands (vestur álmu skólans) og því nauðsynlegt að aflýsa skólahaldi á miðstigi.
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, segir í samtali við mbl.is að um 150 börn hafi verið send heim.
Ekki sé um stórfelldar skemmdir að ræða, loftplötur hafi verið fjarlægðar og unnið sé að dælingu úr húsinu.
Skólabygging Fossvogsskóla hefur nýlega verið gerð upp eftir langvarandi mygluástand vegna leka. Spurð út í þetta segir Eva Bergþóra að það séu mikil vonbrigði að nýuppgert húsið leki. Farið verði í saumana á því hvernig slíkt getur gerst.