Í nótt og í dag unnu verktakar hörðum höndum að því að rjúfa veg og veita Stóru Laxá að hluta til framhjá brú sem er í smíðum yfir ána.
Er það gert sem öryggisráðstöfun til þess að vernda mannvirkið fyrir miklum ís sem myndast hefur í ánni í frostatíð síðustu vikna en Veðurstofan hefur varað við að staðbundin flóð geti orðið í ám sem hafa verið í klakaböndum vegna asahláku í dag.
„Verktakinn hefur verið að standa sig vel í þessum aðgerðum og brugðist við krefjandi aðstæðum. Sem dæmi voru menn hér að vinna í alla nótt við að opna fyrir framhjáhlaupið og undirbúa fyrir mögulega vatnsaukningu í ánni,“ segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar, í samtali við mbl.is
ÍSTAK er verktakinn sem um ræðir en ásamt því að búa til framhjáhlaupið þurfti að rjúfa veginn í nótt „sem að reyndist vera mjög mikið frosinn og fastur fyrir og það þurfti sterkar vinnuvélar til að vinna á veginum eftir þessa frosthörku sem hefur verið hér á þessu svæði,“ segir Óskar.
„Nú eru þeir að veita vatninu frá og reyna að tryggja aðstæður þannig að það séu minni líkur á því að komi klakahlaup með þeim afleiðingum að þau myndu hafa áhrif á undirslátt og á steypumótin,“ segir Óskar og bætir við að einnig sé þetta gert til þess að koma í veg fyrir að stífla myndist við brúna.
„Brúin er byggð fyrir mikið flóð út frá öllum ítarlegustu stöðlum og vatnamælingum á staðnum. Þetta er bara því hún er í viðkvæmri stöðu,“ segir Óskar.
Verkið hófst fyrir rúmu ári síðan en faraldurinn tafði framgang verksins að sögn Óskars en kuldatíðin hefur einnig sett strik í reikninginn.
„Það var gripið til þessa ráðs að byggja yfir brúarmannvirkið til þess að tryggja að steypuvinnan gæti farið fram við þessar vetraraðstæður sem hafa verið. Það er búið að gera skýli ofan á með dúk á hliðunum,“ segir Óskar.
Yfirbyggingin nær yfir alla brúna og er þrír metrar á hæð og 145 metrar á lengd.
„Fyrirhugað er að hita upp mótin undir skýlinu á mánudag og steypa á þriðjudag,“ segir Óskar.
Hann segir verklok fara eftir vetraraðstæðum. Til dæmis hvernig gengur að setja upp vegrið, skilti og fleira sem nauðsynlegt er til að tryggja öryggi.