Ég var algjörlega týnd í sorginni

​Helena Jónsdóttir hefur þurft að finna leiðir til að lifa …
​Helena Jónsdóttir hefur þurft að finna leiðir til að lifa með sorginni en hún missti eiginmann sinn, Þorvald Þorsteinsson listamann. Ljósmynd/Leifur Rögnvaldsson

Við mælum okkur mót einn morgun í vikunni og ákveðum að hittast í myndsímtali, enda býr danshöfundurinn, kvikmyndagerðarkonan og hátíðarstjórnandinn Helena Jónsdóttir í Antwerpen í Belgíu og því miður aðeins of langt fyrir blaðamann að hoppa í hitting. Helena er dansari og dans­höfundur í grunninn. Hún nýtir þann grunn í kvikmynda- og vídeólist sína og ferðast víða um heim að sýna listrænar kvikmyndir.

Hún er einmitt um þessar mundir að undirbúa hátíð sína Physical Cinema Festival eða Hreyfimyndahátíð í samvinnu við Stockfish-hátíðina, sem verður haldin 23. mars til 2. apríl hér á landi. Helena lætur ekki þar við sitja því hún vinnur einnig að eigin verkum, skrifum og kvikmyndalist, en auk þess hefur hún unnið ötullega við að koma arfleifð og eignarbúi eiginmanns síns heitins, Þorvaldar Þorsteinssonar, í örugga höfn.

Helena segir ekki hægt að fara í gegnum sorgina, heldur þurfi að læra að lifa með henni. Rúv sýnir einmitt um helgina heimildarmynd Kristínar Andreu Þórðardóttur, Er ást. Hún fjallar um ástarsamband Helenu Jónsdóttur og Þorvalds Þorsteinssonar og vinnu Helenu við að koma listrænni arfleifð Þorvalds í örugga höfn og halda áfram eftir ótímabært andlát hans.

Sorgin einmanalegt ferli

„Ég vaknaði í fyrra,“ segir Helena þegar blaðamanni verður að orði að það virðist vera meira en nóg að gera hjá henni, en Helena er með mörg járn í eldinum.

„Heilsan byrjaði að koma til baka í fyrra, og með heilsunni kom sköpunargleðin aftur en hún dó 2013,“ segir Helena en Þorvaldur lést 23. febrúar árið 2013 og líf hennar snerist algjörlega á hvolf.

Þorvaldur og Helena á brúðkaupsdaginn. Hann lést árið 2013.
Þorvaldur og Helena á brúðkaupsdaginn. Hann lést árið 2013. Ljósmynd/Grímur Bjarnason

„Þegar Kristín spurði mig fyrst, hvort ég vildi vera í þessari mynd, voru mín fyrstu viðbrögð: „nei“. En Kristín hvatti mig til að hugsa málið. Og þegar ég leit í kringum mig fannst mér vera lítið um efni um sorgina; lítið talað um sorg. Þetta er einmanalegt ferli; það er eins og dyrunum sé lokað og lífið bíður hinum megin eftir að maður finni sína eigin leið til að finna kraft til að opna. Ég var algjörlega týnd í sorginni og varð að finna mín eigin ráð, ég fann það einnig á fólkinu í kringum mig. Það sem kom mér mest á óvart var hvað við vissum lítið um hvernig við getum hjálpað okkur sjálfum og öðrum. Það sem ég lærði, og alltof seint, er að við getum ekki gert þetta ein og við þurfum þorpið í kringum okkur til að hjálpa okkur að sjá ljósið. Ekki bíða eftir að einstaklingurinn nái sér og banki upp á þegar hann eða hún er orðin hress, hringdu bjöllunni,“ segir Helena.

Ítarlegt viðtal er við Helenu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert