Gular viðvaranir gefnar út fyrir morgundaginn

Viðvaranirnar gilda fyrir þessa tvo landshluta.
Viðvaranirnar gilda fyrir þessa tvo landshluta. Skjáskot/Veðurstofan

Veðurstofan hefur gefið út gular viðvaranir fyrir Suðurland og Vesturland við Faxaflóa á morgun.

Fyrir Faxaflóa tekur viðvörunin gildi klukkan 2 í nótt og varir til kl. 14 á morgun. Á Suðurlandi tekur viðvörunin gildi klukkan 4 í nótt og varir til kl. 17 á morgun.

Dimmum éljum og mjög slæmu skyggni er spáð í báðum landshlutum, en hvassast verður syðst á Suðurlandi. 

Spáð er suðvestan- og vestanátt og er búist við að vindhraði nái 15-25 m/s á Suðurlandi en 13-20 m/s við Faxaflóa.

Er fólki bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám og færð.

Kóf á Suðurlandi og blint yfir Holtavörðuheiði

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur Vegagerðarinnar, segir að kólna muni á landinu og frysta í kvöld og í nótt. Fyrst kólni vestantil og snjóa muni þar seint í kvöld. Él verði áfram til morguns.

„Um miðjan dag á morgun er útlit fyrir storm og kóf á Suðurlandi, meðal annars austur yfir Hellisheiði og allt til Víkur. Eins verður blint yfir Holtavörðuheiði, einkum frá kl. 12 til 18,“ segir í viðvörun frá Vegagerðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert